Miðjumaðurinn Thomas Partey mun missa af fyrri leik Arsenal gegn París SG í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu vegna leikbanns.
Arsenal vann Real Madrid, 2:1, í seinni leik liðanna og 5:1 samanlagt í átta liða úrslitunum í gærkvöldi en Thomas Partey fékk gult spjald fyrir að sparka boltanum burt seint í leiknum.
Hann var á hættusvæði fyrir leik eftir að hann fékk einnig gult spjald í fyrri leiknum gegn Real Madrid.
Gulu spjöldin hreinsast út í undanúrslitunum og má því segja að þetta hafi verið afar heimskulegt hjá Ganveranum.
Arsenal fær París SG í heimsókn í fyrri leik liðanna 29. apríl.