Mikel Arteta stýrði Arsenal til sannfærandi sigurs, 5:1 samanlagt, gegn Real Madrid í átta liða úrslitum Meistaradeildar karla í knattspyrnu.
Arsenal vann fyrri leikinn, 3:0, í síðustu viku og þann seinni, 2:1, í gærkvöldi. Arsenal er í fyrsta sinn í undanúrslitum keppninnar í 16 ár.
Arteta ræddi við Pep Guardiola, knattspyrnustjóra karlaliðs Manchester City, fyrir leikinn í gær. Arteta var aðstoðarmaður hjá Guardiola í nokkur ár áður en hann tók við Arsenal.
„Hann hefur veitt mér mikinn innblástur. Ég var með honum í teymi í fjögur frábær ár og verð honum ávallt þakklátur. Ég væri ekki hér án hans,“ sagði Arteta á blaðamannafundi eftir leik.