Þrátt fyrir dramatískan sigur Manchester United á Lyon í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar, segir fyrrum markahrókurinn, Troy Deeney, framherja liðsins, hinn danska Rasmus Højlund hafa spilað ömurlega í leiknum.
„Gæði hans felast í því að hlaupa á bakvið varnir og klára sín færi eins fljótt og hann getur. Hann hljóp í átt að andstæðingnum. Hann dekkaði sjálfan sig í staðinn fyrir að láta andstæðinginn um að dekka sig.
Okkur er sagt sem sóknarmönnum að ef varnarmaður getur snert þig ertu ekki rétt staðsettur. Hann hljóp til varnarmannanna! Þannig að já, hann spilaði ömurlega,“ segir Deeney í samtali við talkSPORT.
„Miðað við það sem hann bauð upp á gegn Lyon, gæti ég allt eins dregið fram skóna á ný. Án gríns, hann spilaði ömurlega. Hann leit út fyrir að vera áttavilltur og virkaði týndur.“
Deeney á ekki von á því að Højlund verði áfram í Manchester United.
„Þú getur átt erfiða tíma í markaskorun og þú getur átt erfitt tímabil en hann er niðurlægður. Mér finnst eins og hann þoli ekki pressuna. Hann þarf að eiga stórkostlegt undirbúningstímabil svo þeir láti hann ekki fara.“
Højlund hefur verið orðaður við bæði Juventus og Napoli frá Ítalíu undanfarið en Daninn kom einmitt frá Atalanta á Ítalíu þar sem hann skoraði 10 mörk í 34 leikjum tímabilið 2022-2023.