Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool á Englandi, segir ekkert til í þeim sögusögnum að framherjinn Darwin Núnez hafi ekki verið í leikmannahópi liðsins gegn West Ham vegna rifildis á æfingasvæðinu.
Hann var þó óljós í svörum á blaðamannafundi er hann var spurður út í fjarveru Úrúgvæans en Núnez er væntanlega á förum frá Liverpool eftir tímabilið.
„Hann var ólíkur sjálfum sér daginn fyrir leik og gat ekki verið með,“ sagði Slot. Hann var svo spurður hvað það þýddi. „Hann var ólíkur sjálfum sér,“ svaraði Hollendingurinn aftur.
Slot var svo spurður beint hvort Núnez hefði rifist við meðlimi úr þjálfarateymi Liverpool á æfingasvæðinu.
„Nei, hann gerði það ekki. Hann var bara ólíkur sjálfum sér,“ sagði Slot. Blaðamaður spurði Hollendinginn hvort Núnez hefði þá verið veikur? „Nei, hann var bara ólíkur sjálfum sér,“ svaraði Slot enn og aftur.
Hollenski stjórinn staðfesti að lokum að Núnez verður í hópnum hjá Liverpool er liðið mætir Leicester á útivelli á morgun.