Arsenal vann góðan útisigur á Ipswich, 4:0, í 33. umferð ensku úrvalsdeildar karla í knattspyrnu á Portman Road í Ipswich í dag.
Arsenal er í öðru sæti með 66 stig en Ipswich er í 18. sæti með 21 og gott sem fallið.
Leandro Trossard kom Arsenal yfir á 14. mínútu eftir sendingu frá Bukayo Saka sem snerti fyrirliðann Martin Ödegaard örlítið. Trossard var dottinn áður en hann skaut en náði samt að koma boltanum í netið, 0:1.
Annað mark Arsenal var glæsilegt og kom á 28. mínútu. Þá keyrði Saka upp hægri kantinn og gaf boltann á Mikel Merino sem átti glæsta hælspyrnu á Gabriel Martinelli sem potaði boltanum í netið, 0:2.
Leif Davis í liði Ipswich fékk síðan beint rautt spjald fjórum mínútum síðar eftir ljóta tæklingu á Saka.
Arsenal var lengi að bæta við þriðja markinu en það kom á 69. mínútu. Þá fékk Trossard boltann frá Declan Rice og skoraði sitt annað mark, 0:3.
Varamaðurinn Ethan Nwaneri skoraði síðan fjórða mark Arsenal á 88. mínútu en þá kom hann sér í gott skotfæri inn á teig og skaut í varnarmann og netið, 0:4.
Arsenal fær Crystal Palace í heimsókn í næsta leik sínum í deildinni en Ipswich heimsækir Newcastle.