Sigur Arsenal á Real Madrid tryggði fimmta sæti Englands í Meistaradeild Evrópu að ári. Með sigrinum varð ljóst að enska knattspyrnusambandið verður eitt tveggja stigahæstu knattspyrnusambanda Evrópu á keppnistímabilinu sem tryggir auka sæti í Meistaradeild Evrópu að ári.
Að auki eru frátekin sæti í deildarkeppni Meistaradeildarinnar að ári fyrir sigurvegara keppninnar í ár og sigurvegara Evrópudeildarinnar.
Þannig gætu allt að sjö ensk félög leikið í deildarkeppni Meistaradeildarinnar að ári.
Liðið sem hafnar í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar fær sæti í deildarkeppni Evrópudeildarinnar ásamt bikarmeisturunum en ef bikarmeistararnir hafa nú þegar unnið sér inn Meistaradeildarsæti flyst Evrópudeildarsæti bikarmeistaranna í deildina til liðsins sem hafnar í sjöunda sætinu í vor.
Newcastle hefur með sigri sínum í deildarbikarnum tryggt sér sæti í umspili Sambandsdeildarinnar en ef liðið tryggir sér sæti í Evrópu með árangri í deildinni flyst sæti deildarbikarmeistaranna í deildina.
Chelsea á einnig tvöfaldan möguleika á að komast í Evrópu, bæði í gegnum deildina og með því að sigra Sambandsdeildina en þá fær liðið sæti í deildarkeppni Evrópudeildarinnar.