Ollie Watkins beindi reiði sinni í rétta átt þegar hann skoraði og lagði upp í 4:1 heimasigri Aston Villa á Newcastle í gær.
Sagði Watkins að hann hafi verið reiður yfir því að hafa byrjað á bekknum í Meistaradeildarleikjunum gegn París SG og hefði viljað sýna Unai Emery, knattspyrnustjóra liðsins, að hann eigi að byrja alla stærstu leikina.
Með marki sínu í gær varð Watkins markahæstur allra leikmanna Aston Villa frá upphafi í ensku úrvalsdeildinni ásamt Gabriel Agbonlahor með 74 mörk.
„Ég spilaði í 20 mínútur í báðum leikjunum gegn PSG. Ég lýg því ekki að ég var bálreiður og ég lét Emery vita,“ sagði Watkins í samtali við Sky Sport.
„Hann er stjórinn og auðvitað virðir maður hans ákvörðun en ég er ekki einn af þessum leikmönnum sem sitja glaðir á bekknum.
Ég hef ekki upplifað það áður að missa af stærstu leikjunum og vildi spila miklu meira í þessum leikjum.
Ég átti stóran þátt í að koma okkur þangað sem við erum nú og auðvitað vil ég spila þessa leiki.“
Emery var spurður út í ummæli Watkins og sagði Spánverjinn að það væri frábært að vera reiður og frábært að Watkins hafi spilað eins og hann geðri gegn Newcastle.