Liverpool þarf í mesta lagi sex stig til viðbótar í sex síðustu umferðum ensku úrvalsdeildarinnar til að tryggja sigur í deildinni og meistaratitilinn í 20. sinn.
Ef úrslit verða liðinu hagstæð í dag getur það tryggt titilinn strax í dag. Liverpool heimsækir Leicester klukkan 15.30 í dag en áður en flautað verður til leiks á King Power-leikvanginum heimsækir Arsenal lið Ipswich, sem er í 18. sæti og í bullandi fallbaráttu.
Ef Ipswich tekst að leggja Arsenal að velli getur Lundúnaliðið aðeins safnað 78 stigum það sem eftir lifir leiktíðar og þar sem Liverpool hefur nú þegar safnað 76 stigum myndi sigur á Leicester því duga liðinu til að tryggja titilinn.
Liverpool-liðið yrði þá næst fljótast í sögu ensku úrvalsdeildarinnar til að tryggja titilinn ásamt 2017-2018-liði Manchester City og 2000-2001-liði Manchester United, sem tryggðu titilinn þegar fimm leikir voru eftir af deildinni.
Aðeins 2019-2020-lið Liverpool hefur tryggt sér titilinn fyrr eða þegar 7 leikir voru eftir af tímabilinu.