Liverpool þarf einn sigur úr síðustu fimm umferðunum í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta til að verða Englandsmeistari eftir að liðið sigraði Leicester, 1:0, á útivelli í dag. Úrslitin þýða að Leicester er fallið.
Leikurinn byrjaði mjög fjörlega og Mo Salah fékk dauðafæri strax á 3. mínútu en hann skaut í báðar stangirnar af stuttu færi. Sjö mínútum síðar átti Wilfred Ndidi skot í stöngina á marki Liverpool af tæplega 20 metra færi.
Gekk liðunum illa að skapa sér opin færi það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og voru hálfleikstölur því 0:0.
Liverpool byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og Dominik Szoboszlai og Cody Gakpo fengu báðir góð færi á fyrstu tíu mínútunum en nýttu þau ekki. Luis Díaz og Kostas Tsimikas fengu einnig færi á fyrstu 15 mínútum hálfleiksins en Mads Hermansen í marki Leicester var vandanum vaxinn.
Hann kom hins vegar engum vörnum við á 76. mínútu þegar Trent Alexander-Arnold skoraði sigurmarkið með föstu skoti úr teignum eftir að Mo Salah og Diogo Jota settu báðir boltann í tréverk í sömu sókninni. Bakvörðurinn hafði komið inn á fimm mínútum fyrr.
Liverpool lagði áherslu á að halda forskotinu það sem eftir lifði leiks og skapaði Leicester sér lítið. Varð enn einn sigur Liverpool því staðreynd.