Nottingham Forest gerði góða ferð til Lundúna er liðið vann 2:1-sigur gegn Tottenham í ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu í dag.
Forest-menn hófu viðureignina með látum en strax á fimmtu mínútu kom Elliot Anderson þeim yfir, 1:0.
Á 16. mínútu bætti nýsjálenski markahrókurinn Chris Wood við öðru marki Forest með góðum skalla.
Brasilíumaðurinn Richarlison minnkaði muninn á 87. mínútu. Mörkin urðu ekki fleiri og lokaniðurstaða því 2:1-sigur Forest.
Sigurinn þýðir að Forest er aftur komið í þriðja sætið með 60 stig. Tottenham er í 16. sæti með 37 stig.