Bukayo Saka, enski landsliðsmaðurinn hjá Arsenal, er ekki alvarlega meiddur eftir að hann varð fyrir ljótri tæklingu í leik liðsins við Ipswich í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær.
Leif Davis fékk beint rautt spjald fyrir að fara aftan í Saka í fyrri hálfleik. Þurfti Arsenal-maðurinn aðhlynningu í kjölfarið en hélt áfram. Saka fór að lokum af velli eftir tæplega klukkutíma leik.
Saka fann enn til eftir leik en Mikel Arteta knattspyrnustjóri Arsenal var jákvæður er hann ræddi við BBC eftir leik.
„Hann fann til eftir tæklinguna en þetta virðist ekkert alvarlegt,“ sagði spænski stjórinn.