Manchester City vann dramatískan sigur á Aston Villa, 2:1, í flýttum leik í 34. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla í Manchester í kvöld.
Man. City fór með sigrinum upp í þriðja sæti þar sem liðið er með 61 stig en Villa heldur kyrru fyrir í sjöunda sæti með 57 stig.
Baráttan um sæti þrjú til fimm, sem gefa sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili, er því áfram eitilhörð en aðeins fjögur stig skilja á milli liðanna fimm sem berjast um sætin þrjú.
Í kvöld var það Bernardo Silva sem kom heimamönnum í Man. City í forystu eftir aðeins sjö mínútna leik. Emi Martínez varði þá skot Silva í netið eftir laglegan undirbúning Omars Marmoush.
Marcus Rashford jafnaði metin fyrir Villa á 18. mínútu með marki úr vítaspyrnu og staðan var því 1:1 í hálfleik. Vítaspyrnan var dæmd eftir aðkomu VAR þar sem í ljós kom að Rúben Dias hafði fellt Jacob Ramsey innan vítateigs.
Þegar allt virtist stefna í að liðin myndu þurfa að sættast á jafnan hlut skoraði Matheus Nunes sigurmark Man. City á fjórðu mínútu uppbótartíma. Hann lagði þá boltann í netið af stuttu færi eftir stórkostlega sendingu Jérémy Doku vinstra megin úr vítateignum.