Virgil van Dijk, fyrirliði Liverpool, segir að fari svo að varafyrirliðinn Trent Alexander-Arnold yfirgefi félagið muni stuðningsmenn minnast alls þess góða sem hann áorkaði hjá því.
Samningur Alexander-Arnolds rennur út í sumar og hefur hann sterklega verið orðaður við Real Madríd. Van Dijk var sjálfur að renna út á samningi en framlengdi nýverið til næstu tveggja ára.
„Frá því að ég gekk til liðs við félagið hefur hann verið stórkostlegur leikmaður og ef hann ákveður að fara verður hans minnst fyrir fjölda góðra hluta.
Hvað sem gerist í framtíðinni hjá honum er það nokkuð sem hann þarf að finna út úr sjálfur ásamt fjölskyldu sinni. En hann er leikmaður Liverpool á þessari stundu og hann er mikilvægur liði okkar.
Sem stendur vitum við sem hópur ekki hvað mun gerast. Hann er nú þegar undir mikilli pressu þannig að það er ekki nokkur ástæða fyrir mig að setja hann undir frekari pressu,“ hefur Sky Sports eftir van Dijk.