Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Leeds íhuga að reka Daniel Farke sem knattspyrnustjóra liðsins, þrátt fyrir að hann hafi komið liðinu upp í ensku úrvalsdeildina.
Daily Mail og Mirror greina frá.
Leeds er í toppsæti B-deildarinnar með 94 stig eftir 44 leiki og getur ekki endað neðar en í öðru sæti, þegar tvær umferðir eru eftir.
Liðið var hársbreidd frá því að fara upp á síðustu leiktíð en tapaði að lokum í úrslitum umspilsins á Wembley.
Þrátt fyrir góðan árangur á hliðarlínunni eru mennirnir á bak við tjöldin hjá félaginu ekki sannfærðir um að Farke sé rétti maðurinn til að stýra liðinu í deild þeirra bestu, ef marka má ensku miðlana.
Hann kom Norwich í tvígang upp í úrvalsdeildina en töluvert verr gekk í efstu deild. Féll Norwich illa fyrra tímabilið og var Farke rekinn er liðið var í neðsta sæti um mitt seinna tímabilið.