Jamie Carragher, fyrrverandi leikmanni Liverpool og sparkspekingi, finnst Arne Slot stjóra Liverpool ekki treysta liðinu sínu.
Carragher telur að Liverpool þurfi að styrkja sig í sumar, þar á meðal í vörninni og á miðjunni.
„Þetta er ekki lið stjórans heldur Jürgens Klopps. Arne Slot treystir ekki liðinu,“ sagði Carragher í hlaðvarpinu Stick to Football.
„Slot notar sömu leikmenn í hverri viku. Við vitum ekki hvort þetta sé hans leikstíll, en við munum líklegast komast að því á næsta tímabili,“ bætti Carragher við.
„Ef Ibrahima Konaté eða Virgil Van Dijk myndu meiðast, hver myndi koma í stað þeirra? Þeir eru með Jarell Quansah og Joe Gomez, sem er oft meiddur. Liverpool þarf annan miðvörð til að veita Konaté alvöru samkeppni. Það sama á við um Alexis Mac Allister og Ryan Gravenberch á miðjunni.“
Liverpool er á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og nægir liðinu eitt stig gegn Tottenham næsta sunnudag til að verða enskur meistari.