Birmingham City komst í kvöld í fámennan hóp enska knattspyrnuliða sem hafa náð 100 stigum í deildakeppninni.
Birmingham hefur þegar tryggt sér sigur í C-deildinni og er komið með 102 stig eftir sigur gegn Stevenage á útivelli í kvöld, 1:0.
Stigamet er innan seilingar, Birmingham á enn þrjá leiki eftir og gæti náð 111 stigum en metið á Reading sem fékk 106 stig í B-deildinni tímabilið 2005-2006, með Ívar Ingimarsson og Brynjar Björn Gunnarsson í stórum hlutverkum.
Willum Þór Willumsson kom inn á sem varamaður hjá Birmingham á 68. mínútu en Alfons Sampsted var ekki í leikmannahópnum í kvöld.
Birmingham er með sextán stiga forystu í deildinni og á þó leik til góða á næstu lið.
York City varð fyrsta félagið til að ná 100 stigum tímabilið 1983-84 en það var fyrst hægt eftir að reglan um þrjú stig fyrir sigur var tekin upp árið 1981. Birmingham er sautjánda félagið sem nær þessum stigafjölda í ensku deildunum fjórum.
Leeds og Burnley gætu náð 100 stigum í B-deildinni í vor en bæði eru með 94 stig þegar tveimur umferðum er ólokið. Það yrði þá í fyrsta sinn sem þrjú félög næðu 100 stigum á sama tímabilinu.
Þessi félög hafa náð 100 stigum í ensku deildakeppninni:
York City (D-deild) – 101 stig 1983-84
Swindon (D-deild) – 102 stig 1985-86
Sunderland (B-deild) – 105 stig 1998-99
Fulham (C-deild) – 101 stig 1998-99
Fulham (B-deild) – 101 stig 2000-01
Plymouth (D-deild) – 102 stig 2001-02
Wigan (C-deild) – 100 stig 2002-03
Reading (B-deild) – 106 stig 2005-06
Newcastle (B-deild) – 102 stig 2009-10
Charlton (C-deild) – 101 stig 2011-12
Leicester (B-deild) – 102 stig 2013-14
Wolverhampton – (C-deild) – 103 stig 2013-14
Sheffield United (C-deild) – 100 stig 2016-17
Manchester City (A-deild) – 100 stig 2017-18
Burnley (B-deild) – 101 stig 2022-23
Plymouth (C-deild) – 101 stig 2022-23