Brasilíumaðurinn Matheus Cunha mun ganga til liðs við Manchester United frá Wolves í sumar. Þetta segir brasilíska blaðakonan Raisa Simplicio.
The Athletic greindi frá fyrr í vikunni að United væri að leiða kapphlaupið um Cunha, sem hefur verið í lykilhlutverki hjá Wolves í ensku úrvalsdeildinni.
Cunha er með klásúlu í samningi sínum sem gerir liðum kleift að kaupa hann á 62,5 milljónir punda.
Simplicio segir að Cunha hafi náð samkomulagi við United og muni skrifa undir hjá félaginu í sumar.
Cunha hefur verið stórkostlegur með Wolves í vetur en hann hefur skorað 14 mörk og gefið fjórar stoðsendingar í deildinni.