Eddie Howe, knattspyrnustjóri Newcastle United, viðurkennir að það hafi tekið verulega á að glíma við slæma lungnabólgu undanfarnar vikur en lítur auðmjúkur til baka.
Howe gat ekki stýrt liðinu í síðustu þremur leikjum í ensku úrvalsdeildinni vegna veikindanna. Liðið vann Manchester United og Crystal Palace en tapaði fyrir Aston Villa í fjarveru hans.
Newcastle fær nýliða Ipswich Town í heimsókn á morgun þar sem hann mætir aftur á hliðarlínuna.
„Ég er ekki 100 prósent líkamlega en ég tel mig vera nærri því 100 prósent andlega, sem er mikilvægast. Þetta hefur verið erfitt. Ég reyni að taka eitthvað jákvætt með mér úr allri reynslu en þetta hefur verið mikil áskorun.
Mér leið skelfilega í Leicester leiknum. Ég hafði áætlað að mæta aftur á æfingu fyrir leikinn gegn Man. United. Ég fór í sturtu og gerði mig kláran en eitthvað sagði mér að mæta ekki. Þetta var augnablikið sem hlutirnir breyttust.
Ég var ánægður með að vera sagt að fara á sjúkrahús. Það var rétti staðurinn fyrir mig. Það var smá léttir að fá þessa umönnun á því augnabliki. Ég verð að segja að þetta varpar ljósi á hvað er manni mikilvægt í lífinu.
Fjölskylda mín og vinir hugsuðu um mig á meðan þessu stóð. Sjónin manns skýrist. Maður getur ekki tekið neinu sem sjálfsögðum hlut,“ sagði Howe á fréttamannafundi í dag og þakkaði starfsfólki sjúkrahússins innilega fyrir.