Tímabil knattspyrnumannsins Diogos Dalots gæti verið búið vegna meiðsla. Portúgalinn glímir við kálfameiðsli og óvíst hvort hann geti spilað meira með Manchester United á leiktíðinni.
Er um mikið áfall fyrir United að ræða, þar sem Dalot er búinn að spila 51 leik á tímabilinu. Hefur enginn í United-liðinu spilað eins mikið og bakvörðurinn.
„Við vitum ekki hvað Diogo verður lengi frá. Hann er búinn að spila mikið og það gæti verið að tímabilið sé búið hjá honum. Við bíðum og sjáum hvernig batinn gengur,“ sagði Rúben Amorim stjóri United á blaðamannafundi í dag.