Burton fór upp úr fallsæti í ensku C-deildinni í fótbolta með heimasigri á Cambridge í fallslag í dag, 2:1.
Jón Daði Böðvarsson er mættur aftur í lið Burton eftir meiðsli og hann gerði fyrra mark Burton á 48. mínútu. Lék hann fyrstu 87 mínúturnar.
Burton er nú með 46 stig, þremur stigum fyrir ofan fallsæti þegar liðið á tvo leiki eftir.
Benoný Breki Andrésson var í byrjunarliði Stockport er liðið sigraði Lincoln, 3:2. Framherjinn var hins vegar tekinn af velli eftir fyrri hálfleikinn í stöðunni 2:0 fyrir Lincoln.
Liðið á enn möguleika á að ná Wrexham í öðru sæti og fara beint upp í B-deildina. Wrexham er með 86 stig og á tvo leiki eftir. Stockport er með 84 og á einn.
Jason Daði Svanþórsson lék allan leikinn með Grimsby í markalausu jafntefli gegn MK Dons á útivelli í D-deildinni. Liðið er fyrir utan umspilið á markatölu og þarf helst sigur á Wimbledon á heimavelli í lokaumferðinni til að eiga möguleika á að fara í umspilið.