Liverpool er Englandsmeistari

Li­verpool er ensk­ur meist­ari karla í knatt­spyrnu í 20. skipti eft­ir að hafa sigrað Totten­ham Hot­sp­ur í 34. um­ferð ensku úr­vals­deild­ar­inn­ar á An­field í dag, 5:1.

Li­verpool er komið með 82 stig þegar fjór­ar um­ferðir eru eft­ir en Arsenal er með 67 stig í öðru sæti og get­ur ekki leng­ur náð Li­verpool að stig­um.

Þar með hef­ur Li­verpool jafnað við erkifjend­urna í Manchester United sem hafði unnið enska meist­ara­titil­inn oft­ast allra, 20 sinn­um, síðast árið 2013.

Leikmenn Liverpool hlýða á The Kop og aðra á Anfield …
Leik­menn Li­verpool hlýða á The Kop og aðra á An­field syngja "You'll Never Walk Alone" eft­ir leik­inn. AFP/​Paul Ell­is

Gríðarleg stemn­ing var á An­field í dag eins og vænta mátti en aðeins sló á hana á 12. mín­útu. Þá skoraði Dom­inic Solan­ke, fyrr­ver­andi leikmaður Li­verpool, glæsi­legt skalla­mark eft­ir horn­spyrnu James Madd­i­sons frá hægri og Totten­ham var óvænt komið yfir, 1:0.

Virgil van Dijk og Harvey Elliott baða knattspyrnustjórann Arne Slot …
Virgil van Dijk og Har­vey Elliott baða knatt­spyrn­u­stjór­ann Arne Slot í kampa­víni. AFP/​Paul Ell­is

Það stóð þó ekki lengi. Á 16. mín­útu slapp Dom­inik Szo­boszlai inn í víta­teig­inn hægra meg­in og sendi fyr­ir á Luis Díaz sem skoraði, 1:1. Markið var reynd­ar dæmt af til að byrja með en í ljós kom að Szo­boszlai var ekki rang­stæður og markið gott og gilt.

Alisson Becker og Arne Slot fagna í leikslok.
Al­isson Becker og Arne Slot fagna í leiks­lok. AFP/​Paul Ell­is

Og átta mín­út­um síðar var fjörið á An­field orðið enn meira. Á 24. mín­útu vann Ryan Gra­ven­berch bolt­ann af varn­ar­manni við víta­teigs­lín­una og náði að ýta hon­um á Al­ex­is Mac Allister sem skoraði með mikl­um þrum­fleyg með vinstri fæti upp í hægra mark­hornið, 2:1.

Li­verpool lét kné fylgja kviði og á 34. mín­útu tók Mac Allister horn­spyrnu frá hægri. Cody Gakpo náði bolt­an­um og skaut úr miðjum víta­teig í vinstra hornið, 3:1, og þannig var staðan í hálfleik.

Luis Diaz fagnar eftir að hafa jafnað fyrir Liverpool á …
Luis Diaz fagn­ar eft­ir að hafa jafnað fyr­ir Li­verpool á 16. mín­útu AFP/​Paul Ell­is

Gakpo hefði getað skorað fjórða mark Li­verpool á 49. mín­útu en hann skaut ekki í dauðafæri, einn gegn markverði, og send­ing til hliðar mistókst.

Mohamed Salah urðu hins veg­ar ekki á nein mis­tök á 63. mín­útu þegar hann skoraði langþráð mark eft­ir nokkra þurrð und­an­farið. Hröð sókn Li­verpool, Szo­boszlai renndi bolt­an­um á Salah sem lék til vinstri inn í víta­teig­inn og skaut í hægra hornið niðri, 4:1.

Szo­boszlai var allt í öllu í sókn­ar­leik Li­verpool í dag og var óhepp­inn að bæta ekki við fimmta mark­inu eft­ir send­ingu frá Salah á 66. mín­útu. Hann komst einn gegn Vicario markverði sem varði vel frá hon­um.

Luis Díaz og Alexis Mac Allister fagna eftir að Mac …
Luis Díaz og Al­ex­is Mac Allister fagna eft­ir að Mac Allister kom Li­verpool í 2:1 með glæsi­legu skoti. AFP/​Paul Ell­is

Veisl­an hélt áfram á 69. mín­útu þegar Dest­iny Udogie varð fyr­ir því óláni að senda bolt­ann í eigið mark þegar Trent Al­ex­and­er-Arnold sendi inn í markteig­inn þar sem Salah beið í dauðafæri, 5:1.

Li­verpool var með öll tök á gangi mála það sem eft­ir lifði leika og var nær því að bæta við mörk­um en Totten­ham að laga stöðuna.

Mohamed Salah tekur mynd af sjálfum sér með stuðningsmönnum Liverpool …
Mohamed Salah tek­ur mynd af sjálf­um sér með stuðnings­mönn­um Li­verpool eft­ir að hafa skorað fjórða markið í dag. AFP/​Paul Ell­is

Í leiks­lok braust síðan út gríðarleg­ur fögnuður og enska meist­ara­titl­in­um fagnað inni­lega á An­field. "You'll Never Walk Alone" hljómaði tugþúsundraddað í upp­bót­ar­tíma leiks­ins.

Li­verpool 5:1 Totten­ham opna loka
Augna­blik — sæki gögn...
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert