Liverpool er enskur meistari karla í knattspyrnu í 20. skipti eftir að hafa sigrað Tottenham Hotspur í 34. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Anfield í dag, 5:1.
Liverpool er komið með 82 stig þegar fjórar umferðir eru eftir en Arsenal er með 67 stig í öðru sæti og getur ekki lengur náð Liverpool að stigum.
Þar með hefur Liverpool jafnað við erkifjendurna í Manchester United sem hafði unnið enska meistaratitilinn oftast allra, 20 sinnum, síðast árið 2013.
Gríðarleg stemning var á Anfield í dag eins og vænta mátti en aðeins sló á hana á 12. mínútu. Þá skoraði Dominic Solanke, fyrrverandi leikmaður Liverpool, glæsilegt skallamark eftir hornspyrnu James Maddisons frá hægri og Tottenham var óvænt komið yfir, 1:0.
Það stóð þó ekki lengi. Á 16. mínútu slapp Dominik Szoboszlai inn í vítateiginn hægra megin og sendi fyrir á Luis Díaz sem skoraði, 1:1. Markið var reyndar dæmt af til að byrja með en í ljós kom að Szoboszlai var ekki rangstæður og markið gott og gilt.
Og átta mínútum síðar var fjörið á Anfield orðið enn meira. Á 24. mínútu vann Ryan Gravenberch boltann af varnarmanni við vítateigslínuna og náði að ýta honum á Alexis Mac Allister sem skoraði með miklum þrumfleyg með vinstri fæti upp í hægra markhornið, 2:1.
Liverpool lét kné fylgja kviði og á 34. mínútu tók Mac Allister hornspyrnu frá hægri. Cody Gakpo náði boltanum og skaut úr miðjum vítateig í vinstra hornið, 3:1, og þannig var staðan í hálfleik.
Gakpo hefði getað skorað fjórða mark Liverpool á 49. mínútu en hann skaut ekki í dauðafæri, einn gegn markverði, og sending til hliðar mistókst.
Mohamed Salah urðu hins vegar ekki á nein mistök á 63. mínútu þegar hann skoraði langþráð mark eftir nokkra þurrð undanfarið. Hröð sókn Liverpool, Szoboszlai renndi boltanum á Salah sem lék til vinstri inn í vítateiginn og skaut í hægra hornið niðri, 4:1.
Szoboszlai var allt í öllu í sóknarleik Liverpool í dag og var óheppinn að bæta ekki við fimmta markinu eftir sendingu frá Salah á 66. mínútu. Hann komst einn gegn Vicario markverði sem varði vel frá honum.
Veislan hélt áfram á 69. mínútu þegar Destiny Udogie varð fyrir því óláni að senda boltann í eigið mark þegar Trent Alexander-Arnold sendi inn í markteiginn þar sem Salah beið í dauðafæri, 5:1.
Liverpool var með öll tök á gangi mála það sem eftir lifði leika og var nær því að bæta við mörkum en Tottenham að laga stöðuna.
Í leikslok braust síðan út gríðarlegur fögnuður og enska meistaratitlinum fagnað innilega á Anfield. "You'll Never Walk Alone" hljómaði tugþúsundraddað í uppbótartíma leiksins.