Leeds United vann 4:0 stórsigur á Bristol City á heimavelli í næstsíðustu umferð ensku B-deildarinnar í knattspyrnu karla í kvöld.
Leeds er á toppnum fyrir lokaumferðina um næstu helgi með jafnmörg stig og Burnley í öðru sæti en töluvert betri markatölu.
Bæði lið eru búin að tryggja sig upp í ensku úrvalsdeildina og eiga möguleika á að vinna B-deildina en þarf þá að treysta á að hitt liðið misstígi sig.
Leeds heimsækir Guðlaug Victor Pálsson og félaga í Plymouth í lokaumferðinni á laugardag en Plymouth er í fallsæti og dugir ekkert annað en sigur til þess að eygja von um að halda sæti sínu.
Burnley fær þá Millwall í heimsókn en síðarnefnda liðið er í sjöunda sæti og á í harðri baráttu um að komast upp í sjötta eða fimmta sæti, sem eru umspilssæti vegna eins lauss sætis til viðbótar í úrvalsdeildinni.
Í kvöld skoraði Largie Ramazani tvívegis undir lokin fyrir Leeds eftir að hafa komið inn á sem varamaður, auk þess sem Ao Tanaka og Wilfried Gnonto komust á blað.