Mohamed Salah er ánægður með knattspyrnustjóra sinn Arne Slot en þeir urðu saman Englandsmeistarar með Liverpool í gær.
Liverpool vann Tottenham, 5:1, á Anfield og er búið að safna sér nægilega miklum stigum til að verða Englandsmeistari þó fimm umferðir séu eftir.
Hollendingurinn Arne Slot tók við liðinu fyrir tímabilið af Þjóðverjanum Jürgen Klopp sem hafði stýrt liðinu um árabil.
Salah var spurður út í nýja stjórann af SkySports og hvort hann hafi gert hann að betri leikmanni, en Salah hefur átt frábært tímabil.
„Svo virðist vera, líttu bara á tölurnar!“ Svaraði Salah á léttu nótunum.
„Hann er mjög hreinskilinn og ákveðinn sem gerði líf okkar auðveldara því þú vissir strax hvað hann vildi, sem við náðum að afreka,“ bætti Salah við.