Bournemouth skellti Arsenal, 2:1, í 35. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla á Emirates-leikvanginum í Lundúnum í dag.
Eftir leik er Arsenal í öðru sæti með 67 stig og Bournemouth fer upp um tvö sæti og í það áttunda með 53 stig.
Það bjuggust margir við því að Mikael Arteta myndi hvíla leikmenn fyrir seinni leikinn á móti PSG í undanúrslitum Meistaradeildarinnar, en hann stillti upp sínu sterkasta liði. Leikurinn byrjaði rólega og gerðist lítið fyrstu 20 mínútunar.
Bæði lið komu sér í góðar stöður en það vantaði gæði í síðustu sendingu eða skot. Evanilson fékk bestu færi gestanna í fyrri hálfleik. Fyrst skalli á markteig sem hann setti yfir ,svo vann Bournemouth boltann hátt á vellinum en Evanilson setti boltann yfir markið. Arsenal komst í ágætis stöður líka. Declan Rice átti tvö skot sem fóru fram hjá og Martinelli einnig.
Leandro Trossard átti síðan fínan skalla sem Kepa varði vel í marki Bournemouth. Það var svo á 34. mínútu sem Arsenal komst yfir. Thomas Partey fann Martin Ödegaard sem var einn á auðum sjó á miðjunni, hann setti Rice í gegn sem fór fram hjá Kepa og setti boltann í markið. Afar snyrtilega gert hjá Arsenal og Rice kom þeim í 1:0. Fyrri hálfleikurinn fjaraði dálítið út eftir markið og heimamenn leiddu í hálfleik, 1:0.
Arsenal-menn voru með alla stjórn á leiknum fyrstu 20 mínúturnar í seinni hálfleik. Sköpuðu sér góðar stöður og Saka var nálægt því að skora annað markið á 57. mínútu en boltinn sigldi fram hjá. Í kringum 60. mínútu fór að draga af heimamönnum, orkan var búinn og var nokkuð augljóst að það þurfti ferska fætur inn á. Það voru hins vegar gestirnir sem gerðu tvöfalda breytingu á 65. mínútu sem breyttu leiknum.
Á 67. mínútu tók Antonie Semenyo, sem var nýkominn inn á langt innkast og Dean Huijsen sveif hæst í teignum og skallaði boltann í fjærhornið, 1:1, og Bournemouth jafnaði með fyrsta skotinu á markið. Gestirnir tóku yfir leikinn eftir þetta og náðu svo inn öðru marki á 74. mínútu eftir hornspyrnu. Boltinn barst af Marcus Tavernier á Evanilson á fjærstögnina og boltinn hrökk af honum í markið. 2:1 fyrir Bournemouth og reyndist þetta vera sigurmarkið.
Bournemoth vann sanngjarnan sigur í dag og eru vel að honum komnir. Arsenal var með alla stjórn á leiknum en tapið skrifast á þjálfara Arsenal, Mikel Arteta. Hann var 20 mínútum of seinn að skipta inn á og gestirnir gengu á lagið. Þessi leikur gæti líka haft stór áhirf á stórleikinn á miðvikudag í Meistaradeildinni, þar sem leikmenn Arsenal voru örþreyttir í dag. Þetta þýðir að Arsenal er enn í öðru sæti en Man City aðeins 3 stigum eftir þeim. Bournemouth kemur sér í 8 sætið og nær í mikilvæg stig í sinni Evrópu baráttu.