Brentford hafði betur gegn Manchester United, 4:3, í skemmtilegum leik í Lundúnum í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Brentford er í 9. sæti með 52 stig. United er í 15. sæti með 39 stig.
Brentford byrjaði af miklum krafti og sótti mikið á mark gestanna fyrstu mínúturnar. Það var því gegn gangi leiksins þegar Mason Mount kom United yfir á 14. mínútu með skoti af stuttu færi eftir sprett og fyrirgjöf frá Alejandro Garnacho.
Heimamenn jöfnuðu 13 mínútum síðar þegar United-menn lentu í vandræðum með að koma boltanum í burtu eftir langt innkast. Að lokum sendi Mikkel Damsgaard boltann í Luke Shaw og í netið og var markið skráð sem sjálfsmark.
Sex mínútum síðar var Kevin Schade búinn að koma Brentford yfir með góðum skalla í teignum eftir fyrirgjöf frá Christian Nörgaard. Shade og Nörgaard fengu báðir úrvalsfæri til að bæta við þriðja markinu en Altay Bayindir var í stuði í marki United og var staðan í hálfleik því 2:1.
Þannig var hún fram að 70. mínútu þegar Schade gerði sitt annað mark með öðrum skalla af stuttu færi eftir sendingu frá Bryan Mbuemo. Fjórum mínútum síðar potaði Yoane Wissa boltanum yfir línuna eftir sendingu frá Michael Kayode og staðan var orðin 4:1.
United gafst ekki upp og Garnacho minnkaði muninn í tvö mörk með glæsilegu skoti utan teigs upp í hornið fjær. Amad Diallo minnkaði svo muninn enn frekar á fimmtu mínútu uppbótartímans með föstu skoti í teignum.
Nær komst United hins vegar ekki og Brentford hélt út.