Trent Alexander-Arnold man ekki eftir leik Liverpool gegn Manchester United sem endaði með jafntefli, 2:2, í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í janúar á þessu ári.
Telegraph segir frá en blaðamaður miðilsins Chris Bascombe segist hafa heimildir fyrir því frá innsta hring leikmannsins.
Alexander-Arnold er á förum frá Liverpool í sumar en hann er uppalinn hjá félaginu og vann tvo Englandsmeistaratitla sem og Meistaradeildina. Mun hann að öllum líkindum ganga til liðs við Evrópumeistara Real Madrid.
Alexander-Arnold var harðlega gagnrýndur fyrir frammistöðu sína gegn United í janúar en jafnteflið var slæmt á þeim tíma, en hafði síðan enga þýðingu þegar leið á tímabilið.
Leikurinn var sá fyrsti eftir að Real Madrid bauð Liverpool 20 milljónir punda til að fá hann strax í janúar frekar en á frjálsri sölu, líkt og mun gerast í sumar.
Samkvæmt Telegraph var hugurinn hjá Alexander-Arnold allt annars staðar en á vellinum þann daginn og á hann ekki að hafa munað eftir neinum sem tengdist leiknum.