Leeds, sem vann ensku B-deild karla í knattspyrnu á dögunum, vill verða eitt besta félag í allri Evrópu samkvæmt formanni félagsins Paraag Marathe.
Leedsarar verða í ensku úrvalsdeildinni í haust en liðið féll árið 2023 og var því aftur tvö tímabil í B-deildinni.
Markmið Leeds eru þó háleit og vill félagið verða í fremsta flokki í Evrópu samkvæmt formanninum en þessi orð lét hann falla við fögnuð leikmanna og stuðningsmanna.
Leeds hefur styrkt sig í félagaskiptagluggunum síðustu ár og gæti því stórt sumar verið í vændum.
Leeds var í hópi sterkustu liða Evrópu á árunum 1967 til 1975 en þá varð það tvisvar enskur meistari, vann Borgakeppni Evrópu, sem síðan varð UEFA-bikarinn, árin 1968 og 1971, tapaði úrslitaleiknum í Evrópukeppni bikarhafa árið 1973 og úrslitaleiknum í Evrópukeppni meistaraliða árið 1975.