Nottingham Forest tapaði dýrmætum stigum á heimavelli í dag í harðri baráttu um sæti í Meistaradeild Evrópu í fótbolta. Forest tók þá á móti föllnu liði Leicester og mátti gera sér að góðu jafntefli, 2:2.
Forest er því áfram í 7. sæti með 62 stig þegar tvær umferðir eru eftir en fimm efstu liðin komast í Meistaradeildina. Arsenal með 67, Newcastle með 66, Manchester City með 65, Chelsea með 63 og Aston Villa með 63 stig berjast einnig um að fylgja meisturum Liverpool þangað.
Conor Coady kom Leicester yfir á 16. mínútu en Morgan Gibbs-White jafnaði fyrir Forest níu mínútum síðar.
Gibbs-White lagði síðan upp mark fyrir Chris Wood á 56. mínútu, 2:1, en Facundo Buonanotte jafnaði metin fyrir Leicester, 2:2, á 81. mínútu.
Tottenham tapaði líka á heimavelli, 2:0 fyrir Crystal Palace. Eberechi Eze skoraði bæði mörk Palace á 45. og 48. mínútu en liðið er í 12. sæti deildarinnar og ljóst að það endar ekki neðar.