James Milner, knattspyrnumaðurinn þrautreyndi, er hvergi nærri hættur og stefnir nú á sitt 24. tímabil í ensku úrvalsdeildinni.
Milner, sem er 39 ára gamall, hefur framlengt samning sinn við Brighton um eitt ár en hann hefur leikið með liðinu tvö undanfarin tímabil, enda þótt leikirnir í úrvalsdeildinni á því síðasta hafi aðeins verið fjórir talsins.
Hann lék með Leeds 2002-2004, Newcastle 2004-2008, Aston Villa 2005-06 og 2008-2010, Manchester City 2010-2015, Liverpool 2015-2023 og með Brighton frá þeim tíma.
Leikir hans í deildinni eru orðnir 638 talsins og mörkin 55. Milner hefur aðeins leikið sex deildaleiki utan ensku úrvalsdeildarinnar en það voru leikir með Swindon Town í D-deildinni tímabilið 2003-04 þegar hann var þar í láni í nokkrar vikur.
Hann er næstleikjahæstur eftir stofnun úrvalsdeildarinnar með þessa 638, fimmtán leikjum á eftir Gareth Barry og gæti því slegið metið næsta vetur.
Milner varð enskur meistari með Manchester City 2012 og 2014 og með Liverpool 2020, vann enska bikarinn 2011 með Manchester City og 2022 með Liverpool og Meistaradeild Evrópu með Liverpool 2019, sem og heimsbikar félagsliða sama ár.