Rakel Ösp Sigurðardóttir, einnig þekkt sem SuperKela er þrítugur rafíþróttamaður sem hefur verið að spila og keppa með 354 esports.
SuperKela hefur tekið þátt í norrænni bikarkeppni í Rainbow Six Siege tölvuleiknum auk þess að hún tók þátt í The Machines Arena mótinu sem haldið var í rafíþróttahöllinni Arena á síðasta ári.
Hún byrjaði að spila Rainbow Six Siege með manninum sínum og öðrum vinum og ákváðu þau í gríni að skrá sig í norræna bikarkeppni fyrir nokkrum árum síðan.
„Ég fékk bragðið af þessu þar og er hungruð í meira!“ segir SuperKela í samtali við mbl.is.
Um þessar mundir er hún að leita sér að kvenkyns spilurum til þess að mynda lið í tölvuleiknum Rainbow Six Siege en það er fyrstu persónu skotleikur sem hún hefur verið að spila undanfarið.
Er hún því að æfa sig mikið í leiknum og heldur utan um Discord-rás með félögum sínum að nafni 354 Gaming og fer sú rás ört stækkandi.
„Þar höldum við allskonar smámót og gefum veglega vinninga. Um daginn var mix-match mót í Rocket League og unnu keppendur lyklaborð, boli, húfur, konfektkassa og fleira,“ segir SuperKela.
Þegar hún æfir sig þá spilar hún með félögum sínum sem einnig eru hluti af 354 Gaming og svo fara þau yfir endurspil leikjanna til þess að rýna í hvað mætti fara betur. Eins horfir hún á myndbönd á netinu af atvinnumönnum í faginu til þess að bæta eigin getu.
„Það er líka ótrúlega gaman hvað er mikið meira á bakvið þennan leik en bara að skjóta andstæðinginn.“
Þrátt fyrir að spila mikið af fyrstu persónu skotleikjum er hennar uppáhaldsleikur hinn klassíski Legend of Zelda: Ocarina Of Time en er það aðallega vegna nostalgískra minninga. Þann leik spilaði hún óspart á Nintendo 64- leikjatölvu en fyrsti PC-tölvu leikurinn hennar var Dungeon Keeper.
Nefnir hún einnig tölvuleiki sem hún heldur upp á í dag og eru þeir meðal annars Rainbow Six Siege, The Long Dark og Borderlands og Rogue Heroes en hann er spilaður á Nintendo Switch- tölvum. Þann leik hefur hún spilað mikið með manninum sínum en hann er þekktur sem TheUnbornGraves eða bara Graves.
Ljóst er að SuperKela hefur spilað fjöldan allan af leikjum en hún hefur spilað tölvuleiki frá ungum aldri, eða frá því í kringum tveggja til þriggja ára gömul. Spilaði hún þá hinn sígilda Duck Hunt á NES- leikjatölvu.
SuperKela segist alls ekki hafa átt von á því hversu stórar rafíþróttar yrðu eins og þær eru í dag, til samanburðar við hvernig viðhorfin til tölvuleikja voru áður en að sögn SuperKelu var „ekkert cool þá að vera leikjanördi“.
Vegna þessa telur hún sig ekki hafa átt mikið sameiginlegt með stelpunum í grunnskólanum og er jafn forundra á því að hún myndi síðar koma fram í blaðinu og „opinbera leyndarmál sitt einn daginn“.
Er hún mjög ánægð með þróun rafíþrótta á Íslandi og segir þær hafa tekið gríðarlegt stökk á stuttum tíma.
„Þar sem ég ólst upp fyrir framan skjáinn þá er þetta líf mitt. Ég á bara góðar minningar með vinum úr þessum heimi, heimi sem ég get skotist í eftir vinnu eða dagsverkin o.þ.h. og sett raunverulega heiminn á pásu á meðan.“
Hefur SuperKela það að markmiði að gerast atvinnumaður í Rainbow Six Siege og sem fyrr segir vill hún mynda lið með fleiri kvenkyns spilurum auk þess sem henni langar til þess að keppa oftar.
Hægt er að fylgjast með SuperKelu á Twitch-rásinni SuperKela en þar streymir hún fjöldan allan af tölvuleikjum og jafnframt einhverskonar Indie-tölvuleiki sem hún hefur að geyma á leikjaveitunni HumbleBumble.
Að lokum segir SuperKela „keep calm and game on“.
Vilt þú vera leikmaður vikunnar? Sendu okkur skeyti á vidja@mbl.is !