Patrekur Gunnlaugsson, einnig þekktur sem Pat, er 26 ára gamall rafíþróttamaður og keppir í fyrstu persónu skotleiknum Counter-Strike: Global Offensive með Fylki.
„Ég prófaði fyrst CS þegar ég var aðeins átta ára gamall. Þá var stóri bróðir minn byrjaður að spila og pabbi minn leyfði mér að spila í korter á dag,“ segir Pat í samtali við mbl.is.
„Ég man svo vel eftir tilfinningunni þegar ég fór og sótti mús og músamottu, settist við tölvuna hans pabba og fór á Simnet silly eða Mania í CS 1.6.“
Pat hitar vel upp fyrir keppnisleiki og byrjar hann þá á því að hita líkamann upp með armbeygjum og að lyfta lóðum til þess að „fá blóðið til að renna“. Að því loknu hitar hann upp heilabúið með því að spreyta sig á leik sem heitir Aim Lab og þegar hann er tilbúinn fer hann í Aim_botz í um fimmtán mínútur.
„Ég enda svo rútínuna á free for all deathmatch þar sem ég stefni að ná 600 drápum. Þessi rútína kemur manni í gírinn,“ segir Pat sem vinnur markvisst að því að bæta sig sem spilari ásamt því að verða betri liðsfélagi.
Hann telur Counter-Strike vera sinn uppáhaldsleik í dag en kann einnig að meta aðra leiki og má nefna að hann hefur spilað World of Warcraft mikið auk þess að hafa tekið smá rispu í League of Legends en var það að mestu leyti vegna þess að bekkjabræður hans voru að spila leikinn.
Tölvuleikurinn Heroes of Might and Magic 3 var fyrsti leikurinn sem hann spilaði og segir hann jafnframt að það sé „einn besti leikur sem hefur verið gerður“ en það er herkænskuleikur sem kom út árið 1999.
Gróska rafíþrótta á Íslandi kom honum ekki mikið á óvart og segir Pat að hann hafi alltaf litið á þetta sem íþrótt, þá sérstaklega Counter-Strike.
„Þetta er bara skák á sterum.“
Pat leggur einnig áherslu á hvað andleg og líkamleg heilsa skiptir máli í þessarri íþrótt og segir jafnframt að það sé „mjög tæpt að geta náð langt í leiknum ef maður hugsar ekki um andlegu og líkamlega heilsu“.
„Ef þú færð góðan svefn, næringu, hreyfingu og hefur gaman að því að bæta þig, þá er allt hægt.“
Sem fyrr segir byrjaði hann sjálfur að spila Counter-Strike átta ára gamall og keppti hann á sínu fyrsta móti á HRingnum árið 2010 með Birgi Þór Þórðarson, einnig þekktur sem Bigzzyy, ásamt þremur öðrum einstaklingum sem hann þekkir ekki í dag.
Var hann þá fjórtán ára og man vel eftir því hversu svakalega ungur hann var á þeim tíma og bjóst hann við því að bestu CS spilarar landsins væru „voðalega lúðalegir“ en svo var raunin önnur, „mér fannst þeir nettir“.
„Ég gleymi því aldrei þegar við vorum að keppa á móti liði sem sat á móti okkur. Þeir voru svona 25 ára og tóku allir yfir 170 í bekk. Ég var þarna um 50kg táningspjakkur og þeir voru ekki sáttir með mig eftir leikinn.
Ég man vel eftir því að hafa rústað manninum sem sat á móti mér og hann starði í augun mín eins og hann ætlaði að hjóla í mig. Það kom adrenalíninu í gang og þeir áttu ekki séns í okkur eftir það. Svo voru þeir auðvitað vinalegir við okkur litlu pjakkana eftir leikinn og hrósuðu mér fyrir góða spilamennsku.“
Stuttu eftir HRinginn árið 2010 hættu flestir sem hann þekkti að spila í CS 1.6 og hafði hann sjálfur engann áhuga á CS Source svo hann hætti að spila leikinn. Þegar CS:GO kom út spilaði hann leikinn eitthvað aðeins en ekki mikið fyrr en hann tók saman við húsvíska rafíþróttaliðið Konvicted árið 2017.
„Þetta var lið sem mig langaði alltaf að spila fyrir þegar ég var krakki. CS senan á Húsavík var rosalega stór með fullt af „klönum“ (e. clan) og Konvicted voru bestir.“
Pat telur Rafíþróttasamtök Íslands vera að standa sig ótrúlega vel og dettur jafnframt ekkert í hug sem mætti bæta á því sviði. Vill hann halda áfram að sjá samtökin „gera alla þessa hluti fyrir sportið og þá verður þetta alltaf betra og betra“.
„Mitt markmið er að vinna Vodafone-deildina einn daginn og halda áfram að hafa gaman að leiknum. Ekkert af þessum markmiðum gengur upp ef ég hef ekki gaman að þessu,“ segir Pat að lokum og nefnir að hann vilji vera betri spilari í alla staði.
Vilt þú vera leikmaður vikunnar? Sendu okkur skeyti á vidja@mbl.is !