Atli Snær Sigurðsson, einnig þekktur sem Ic3Fog, er sannkallað íslenskt undrabarn í rafíþróttum en hann er ekki nema þrettán ára gamall og sinnir rafíþróttum af kappi.
Hefur hann verið að keppa í tölvuleiknum Dota 2 en sá leikur er þekktur fyrir að vera flókinn í spilun og er jafnframt talinn einn erfiðasti leikurinn í rafíþróttum.
Atli fær fimm tölvudaga í viku og notar hann þá til þess að æfa sig í leiknum og hækka „MMR“ hjá sér, en MMR er einskonar getustaða innan Dota.
Atli fékk undanþágu vegna aldurs í september síðastliðnum til þess að keppa á Almenna 1 í Dota 2 mótinu en þá var hann með 1800 í MMR, í dag er hann kominn í 3200 MMR.
„Þeir sem eru að spila með honum vilja meina að hann ætti að vera rankaður töluvert hærra miðað við getu í leiknum,“ segir Sigurður Jens Sæmundsson, faðir Atla í samtali við mbl.is.
Það krefst mikillar vinnu og tíma að hækka MMR innan leiksins, en 20 MMR-stig eru gefin fyrir hvern sigurleik og 20 stig eru dregin af fyrir hvern tapleik.
„Hann er með mörg þúsund færri spilaða leiki miðað við aðra spilara í sama ranki og hann.“
Tölvudagana fimm vinnur Atli sér inn fyrir með því að mæta á fjórar körfuboltaæfingar í viku auk þess að aðstoða foreldra sína við heimilisstörf og að hugsa um yngri systkini sín.
Spilar hann svo og æfir sig á þessum tölvudögum, eins og fram kemur hér að ofan, en hann er einnig duglegur að skipta á milli hlutverka í leiknum. Í Dota eru fimm leikmenn í hvoru liði og hverjum leikmanni er skipað ákveðið hlutverk.
Atli spilar að mestu leyti í stöðu eitt, þrjú og fjögur en þá æfir hann sig annaðhvort í hóp með öðrum Íslendingum, Svíum eða Þjóðverjum sem hafa orðið vinir hans í gegnum tölvuleikjaspilunina.
Flestir krakkar nútímans byrja á að spila tölvuleiki eins og Minecraft, en það er einmitt sá leikur sem að Atli byrjaði fyrst að spila. Seinna fór hann að fylgjast með föður sínum í Dota, eða árið 2016, og vildi ólmur prófa leikinn.
„Smám saman spilaði hann Dota meira og meira en það var ekki fyrr en hann var ellefu ára, þegar hann hafði safnað sér sjálfur fyrir eigin PC-tölvu, sem hann fór virkilega að spila leikinn af krafti,“ segir Sigurður.
Fyrir einhverja tilviljun rakst faðir Atla á Almenna 1 Dota mótið sem hann fékk undanþágu fyrir drenginn til þess að taka þátt í og stóð hann sig mjög vel á því móti og fékk verðskuldaða athygli fyrir það.
En sú minning sem situr efst í huga Atla er frá síðasta Dota móti, Dóra Bikarinn, en þar var hann að spila Snapfire stuðning og hitt liðið var að klára leikinn, en Atli náði að „gleypa leikmanninn í stöðu eitt í sínu liði og henda honum heim þannig að hann gat fengið fulla orku og mætt aftur í bardagann, sem þeir sneru svo við og unnu leikinn að öllum óvörum“.
Hægt er að horfa á atvikið í myndbandi hér að neðan, en markmið Atla er að halda áfram að bæta sig og vonast til þess að komast í sterkt Dota 2 lið í Evrópu.
Atli streymir einnig frá sér að spila en hann gerir það á Twitch-rásinni Ic3Fog.