Rússneska liðið Virtus.pro, sem spilar nú undir nafninu Outsiders, var dæmt úr leik eftir að leikmaðurinn Pure, Ivan Moskalenko, var ásakaður um stuðning við innrásina í Úkraínu.
Pure er sagður hafa skrifað bókstafinn Z sem merki um stuðning við innrásina í Úkraínu. Í kjölfarið var honum og liðinu hans meinað að spila áfram á austur-evrópska umspilsmótinu fyrir ESL One Stockholm Major.
Atvikið átti sér stað innanleikjar í undanúrslitaviðureign efra leikjatrés, þar sem Outsiders spiluðu gegn liðinu Mind Games.
Þegar á hléi stóð innanleikjar notaði Pure eiginleika innan Dota sem gerir leikmönnum kleift að teikna á smákortið, en hann hafði teiknað eitthvað sem leit út eins og Z.
Skömmu eftir það krotuðu liðsfélagar hans yfir bókstafinn. En bókstafurinn Z er sagður vera táknrænn fyrir stuðning við innrásina í Úkraínu.
Pure útskýrir mál sitt í myndbandi sem birt var á Twitter, en þar segir hann þetta hafa gerst fyrir slysni og að hann hafi ekki ætlað sér að móðga neinn.
„Það var langt hlé í leiknum, strákarnir og ég voru að tala saman og teikna á smákortið. Þegar við sáum hvernig teikningin mín leit út, reyndum við að hylja hana,“ segir Pure um atvikið.
„Ég ætlaði ekki að móðga neinn, þetta gerðist óvart. Friður til allra.“
Mótastjórnin Beyond the Summit tilkynnti skömmu síðar að bæði Pure og liðið hans, Outsiders, hafi verið dæmdir úr leik og fái ekki að spila áfram á mótinu.
Mind Games töpuðu viðureigninni sem atvikið átti sér stað í, en fékk hana skráða sem sigur vegna þess að Outsiders voru dæmdir úr leik.
Allar aðrar viðureignir sem Outsiders spiluðu á mótinu voru líka skráðar sem tap eða sem uppgjöf.
Vegna þessa heldur Mind Games áfram í úrslit efra leikjatrés og Team Spirit, sem hefði spilað á móti Outsiders í neðra leikjatré, græðir líka á þessu.