Ríkjandi Íslands- og bikarmeistarar í leiknum Rocket League, LAVA Esports, hefur gert samning við Vallea að keppa undir merkjum LAVA á komandi tímabili í Ljósleiðaradeildinni.
LAVA Esports, sem hefur sýnt ótrúlegan árangur í Rocket League, tekur nú höndum saman við eitt öflugasta Counter-Strike lið landsins til að sækja hærra í íslensku rafíþróttasenunni.
Liðsmenn Vallea komust í Stórmeistaramótið á síðasta tímabili en ljóst er að um gríðarlega öflugt lið með mikla reynslu er um að ræða.
Samsettur er þetta einn reynslumesti hópur landsins sem hefur unnið til fjölda verðlauna í CS:GO, leikmenn sem hafa spilað í stjörnuprýddum liðum eins og Seven og WarMonkeys.
Það er því ljóst að samkeppnin í Ljósleiðaradeildinni er að harðna enn frekar og stefnir í hörkuspennandi tímabil.
„Við erum með það markmið að vera fyrirmyndir og stuðningsaðilar íslensku rafíþróttasenunnar,“ segir Gunnar Þór Sigurjónsson, einn eiganda LAVA.
„Þetta er stórt skref í þá átt fyrir okkur að fá tækifæri til að hjálpa fleiri hæfileikaríkum einstaklingum að sýna hvað í þeim býr. LAVA eru gríðarlega stoltir að fá Vallea í hópinn og við hlökkum til að stíga á stærsta svið íslenskra rafíþrótta með þeim í vetur.“
Leikmenn LAVA esports verða eftirfarandi:
Sigurður „iNstaNt“ Þórhallsson
Birgir „sPiKe“” Ágústsson
Arnar Freyr „Stalz“ Þorgeirsson
Styrmir „goa7er“ Tómasson
Gísli Geir „TripleG“ Gíslason
Gauti „FuNky“ Þorvaldsson
„Við vildum vinna með orgi sem setur leikmennina og leikinn í fyrsta sæti. Við stefnum hátt og viljum vera sýnilegir, LAVA er í aðstöðu til að hjálpa okkur að ná lengra í þeim efnum,“ segir Gísli Geir Gíslason, liðsstjóri Vallea.
„Senan hér heima er að vaxa á ógnarhraða samhliða hröðum vexti um allan heim. Það er verið að móta framtíðina í rafíþróttum á hverjum degi og það er ótrúlega gaman að vera hluti af því ferli.“