Fyrr í vikunni tilkynnti Breiðablik um nýtt keppnislið sem mun keppa í Counter-Strike: Global Offensive undir merkjum Breiðabliks.
Nú heldur liðið áfram að þenja út starfsemi sína og kynnir nýtt keppnislið í Rocket League til leiks, sem mun einnig keppa í efstu deild fyrir hönd Breiðabliks.
Leikmannahópur Breiðabliks í Rocket League eru allir reynsluboltar en hópurinn samanstendur af EmilVald, Paxole, Smushball og Krilla.
Vert er að nefna að EmilVald er fjórfaldur Íslandsmeistari í leiknum en bæði hann og Paxole eru fyrrum leikmenn LAVA Esports, sem eru ríkjandi Íslandsmeistarar.
„Við erum himinlifandi að hafa gert samning við þessa flottu leikmenn. Rocket league var ein vinsælasta rafíþróttin sem iðkendur okkar sóttu fyrsta starfsárið,“ segir Davíð Jóhannsson, formaður rafíþróttadeildar Breiðabliks, í samtali við mbl.is.
EmilVald mun ekki bara keppa fyrir hönd Breiðabliks heldur mun hann einnig taka að sér þjálfarahlutverk í Rocket League í vetur.
„Við vorum með mikið af öflugum krökkum og ákváðum við að senda þrjú ungmennalið í Arena deildina síðasta vetur. Því var frábært fyrir okkur og okkar iðkendur að eignast lið í efstu deild fyrir þetta tímabil.“
„Það verður mikil stemmning í kringum Rocket League hjá Breiðablik í vetur.“