Í síðasta mánuði mættu íslenskir Dota 2-spilarar í rafíþróttahöllina Arena og kepptu á Dota 2-móti.
Aleksander Mojsa, betur þekktur sem Mojsla innan samfélagsins, er mótastjóri og jafnframt einn leikmanna liðsins Ragga Rejects, sem bar sigur af hólmi á mótinu í september.
Íslenska Dota-samfélagið er frekar lítið með þéttum kjarna og grín og glens einkennir samskipti leikmanna sín á milli. Vert er að nefna að viðurnefnið Raggi Rejects kom til sem eins konar grín á milli leikmanna.
„Raggi gat ekki spilað með okkur, svo við ákváðum að gera Ragga að jarmi (e. meme) og skíra liðið Raggi Rejects,“ segir Mojsla í samtali við mbl.is.
Eins má nefna að Mojsla og Róbert, íslenskur Dota 2-leikmaður, áttu í „ímynduðum ágreiningi“ áður en þeir ákváðu að „snúa upp á söguþráðinn“ með því að sameinast í lið.
Varð það til mikilla bóta eins og sigur á síðasta móti gefur til kynna.
Þrátt fyrir að vera bæði þekktur og vel liðinn innan samfélagsins hefur Mojsla hins vegar sætt mikilli en þó uppbyggilegri gagnrýni fyrir undarlegt val innanleikjar.
„Ég er ekki hefðbundinn spilari, ég er meira svona „út fyrir kassann-spilari“. Þar sem ég vel mér skrýtnar hetjur og læt þær bara virka. Það er náttúrlega alltaf eitthvað á bak við það samt,“ segir Mojsla og bætir við að hann sé einnig gagnrýndur fyrir að kaupa skrýtna hluti í leiknum.
Í því skyni má til dæmis nefna einn ákveðinn hlut sem Mojsla kaupir yfirleitt innanleikjar og telur vera þann vanmetnasta í leiknum.
Um er að ræða svokallaða Aether Lens sem gerir hetjunni kleift að drífa lengra þegar hún ræðst til atlögu.
„Mér finnst þetta vera mjög vanmetinn hlutur og margir gera grín að mér fyrir að kaupa hann og þá sérstaklega fyrir hetjur sem þetta ætti endilega ekki að fara með, samkvæmt hefðbundnu leiðinni,“ segir Mojsla.
„Hefðbundna leiðin er að kaupa þetta ekki, en mér finnst það gott.“
Sem fyrr segir var Mojsla í sigurliði mótsins í september en hann segir Dota-mótin ekki endilega snúast um að skera úr um það hver sé bestur. Mikilvægara markmið sé að styrkja og stækka samfélagið í kringum leikinn.
Dota-mótin snúast þá aðallega um að efla samfélagið sjálft og að þátttakendur skemmti sér vel. Það gerir mótin að góðum vettvangi fyrir nýliða sem eru að stíga sín fyrstu skref í leiknum og vilja kynnast öðrum íslenskum Dota-leikmönnum.
Til þess að sporna við því að bestu leikmennirnir á Íslandi hópi sig saman og nái yfirburðastöðu hefur mótastjórn haft vakandi auga með því hverjir eru saman í liði. Þannig myndast meira jafnvægi innan senunnar og fleiri eiga möguleika á að vinna.
Mojsla segir ástæðu þess að Dota-samfélagið sé lítið tengjast því hve flókinn leikurinn er.
„Ég held að lærdómskúrvan sé of há þegar maður er að byrja svo þetta getur orðið aðeins of mikið,“ segir Mojsla en hann hefur í ófá skipti aðstoðað nýliða í leiknum við að koma sér af stað og læra betur inn á hann.
„Best er að byrja að spila með einhverjum sem er Dota-leikmaður og taka létta spilatörn (e. session), þar sem þið eruð tvö eða þrjú að spila léttan leik og verið er að kenna viðkomandi á eina hetju í senn.“