Atgeirar, eitt sterkasta liðið í íslensku Overwatch-senunni, beið lægri hlut fyrir um viku síðan þegar NÚ fagnaði sínum fyrsta sigri á lanmóti í Overwatch 2.
Fannar Logi Bragason „TheChosenOne“, þjálfari Atgeira, hefur áður greint frá tilhlökkun liðsins yfir keppnisliði NÚ og þá einna helst vegna harðnandi samkeppni innan senunnar. Hefur NÚ því orðið við bón Atgeira, sem hafa verið nánast óstöðvandi fram að þessu.
Umrætt lanmót fór fram í rafíþróttahöllinni Arena. Það var að auki fyrsta lanmótið þar sem keppt var í framhaldsleik Overwatch, þá Overwatch 2 sem kom nýlega út.
„Við erum mjög sáttir með þennan sigur og gaman að geta loksins sýnt styrk okkar. Við leyfðum okkur aðeins að fagna þessu," segir Ingólfur Sigurðsson „ILO“, leikmaður NÚ, í samtali við mbl.is.
Bjuggust leikmenn NÚ við erfiðari leik gegn Atgeirum en Ingólfur segir sigurinn ekki hafa komið þeim á óvart, þar sem stefnt var að sigri frá upphafi og voru þeir einnig vel undirbúnir.
„Þegar við kepptum á seinasta lanmóti, á undan þessu, vorum við nýmyndað lið og ekki voru allir liðsmenn sem komust í það mót. Þegar við kepptum á þessu móti vorum við búnir að læra betur hver inn á annan og hópurinn orðinn miklu þéttari,“ segir Ingólfur.
NÚ er jafnframt farið að horfa til Almenna bikarsins og stefnir á að hampa Íslandsmeistaratitlinum.
„Það er flott að þessir strákar séu að æfa sig. Við unnum fyrra Arena-mótið og Helgarmótið, þetta skiptir okkur engu máli, ekki að öðru leyti en því að nú höfum við fengið betri sýn á það sem vantar upp á,“ segir Fannar Logi „The ChosenOne“, þjálfari Atgeira, í samtali við mbl.is.
Þá bætir Fannar við að það eina sem skiptir Atgeira máli sé deildin sjálf og að ókeypis pítsur og gjafabréf séu aukaatriði.
„Við erum með betri spilara, við þurfum bara að spila betur saman.“
Á mótinu voru Atgeirar hins vegar ekki fullmannaðir, líkt og NÚ á þeirra fyrsta lanmóti. Í lið Atgeira vantaði Rúnar Óla Eiríksson „Rúnka“ en í stað hans spilaði Atli Már Ottóson „Ottess“.
Verður því fróðlegt að fylgjast með liðunum keppa í stóru deild Almenna bikarsins, sem hefst skömmu eftir áramót. Þar verður keppt í Overwatch 2. Talsverður munur er á Overwatch og Overwatch 2.
„Í Overwatch var hægt að spila „comps“ sem var mjög einfalt að spila en líka mjög áhrifaríkt á móti liðum sem kunnu ekki að spila á móti því. Eins og t.d „Double shield“, compið sem Atgeirar gerðu frægt,“ segir Ingólfur og bendir á að Overwatch 2 sé talsvert hraðari leikur og árangurinn byggist frekar á styrk einstaklingsins.
„Mér finnst Overwatch 2 henta okkur mjög vel þar sem við erum með virkilega góða leikmenn og getum spilað mjög hratt.“
Fannar segir liðið enn vera að venjast Overwatch 2 og bætir við að þeir hafi ekki haft mikinn tíma til þess að skrimma og æfa sig.
„Okkur finnst ennþá gaman að spila og við erum bara að leika okkur og finna út hvernig við viljum gera það,“ segir Fannar.
Þá segir hann Atgeira alltaf hafa verið lítilmagna í senunni þó að staðan sé önnur í dag.
„Við höfum alltaf verið „underdogs“ og við höldum því hugarfari áfram. Við erum ekki vanir að spila hvítum, heldur leið okkur best á afturfæti en við erum ekki lítilmagnar lengur.“
„Hvítur á leik og við ætlum okkur að sigra.“