Það er mikið um að vera í Kraftvéladeildinni um þessar mundir en fimmta vika deildarinnar var að hefjast og er byrjað að skýrast hvaða lið eru sterkust á Íslandi.
Fylkir hefur farið taplaust í gegnum deildina og er stigahæst en Kórdrengir og Frændafli eru hnífjafnir, einu stigi undir Fylki.
Sex leikir verða spilaðir á morgun og mætast þá stálin stinn þar sem Frændafli og Fylkir eiga leik. Þá reynir á Fylki að halda sér taplausum í deildinni en þetta er einnig gríðarlega gott tækifæri fyrir Frændafla til þess að sanna styrk sinn.
Mím-klúbburinn Breiðnefur hefur komið skemmtilega á óvart í deildinni en þó ekki fyrir frammistöðu sína, þar sem liðið hefur tapað hverjum einasta leik fram að þessu.
Hins vegar hafa leikmenn Breiðnefs verið duglegir að gantast með stöðuna og jarmað talsvert um sjálfa sig bæði á Facebook-hóp og Discord-rás íslenska Dota-samfélagsins.
Bergur Árnason „flying“, í mótastjórn Kraftvéladeildarinnar, segir mestu ánægjuna vera í sambandi við fjölda nýliða í deildinni og í senunni almennt.
„Það hafa líklega ekki verið svona margir íslenskir Dota-nýliðar síðan leikurinn kom út,“ segir Bergur í samtali við mbl.is og bætir við að áhorfið hafi einnig aukist.
Ber þetta því merki um að íslenska senan í Dota fari vaxandi og hefur mótastjórnin einmitt haft það að markmiði fyrir deildina.
Á YouTube-rás Dota Íslands er hægt að finna endursýningar af flestum spiluðum leikjum og í nýjasta myndbandi má sjá Ungmennafélag Vigga Klikks leggja Mím-klúbbinn Breiðnef að velli.