Leikmenn World of Warcraft hafa aldrei áður haft jafn mikið að segja um útlit persónu sinnar og nú og sýnir myndbandið hér að ofan frá því.
Nýjasti kynþátturinn í World of Warcraft, Dracthyr Evoker, býður upp á ótrúlega marga og ítarlega hönnunarmöguleika.
Í heildina er hægt að stilla 40 mismunandi útlitseinkenni drekans. Þetta eru talsvert fleiri atriði sem hægt er að stilla heldur en eru í boði fyrir aðra kynþætti leiksins.
Meðal atriða sem hægt er að stilla á drekanum eru hornin, líkamsbyggingin, augun, hreistrið, snoppan og halinn ásamt skartgripum og klæðnaði. Þá hafa leikmenn einnig úr breiðri litapallettu að velja.
Að sama skapi er hægt að stilla manngervi drekans á marga mismunandi vegu, meira að segja undirfatnað persónunnar.
Horfðu á myndbandið hér að ofan til þess að sjá hvaða hönnunarmöguleikar eru í boði fyrir kvenkyns Dracthyr Evoker.