Missti þrjátíu kíló af fitu með rafíþróttum

Brynjar Þór „BBRX“ Bergsson, liðssstjóri og yfirþjálfari LAVA Esports.
Brynjar Þór „BBRX“ Bergsson, liðssstjóri og yfirþjálfari LAVA Esports. Ljósmynd/Aðsend

Hjá ís­lenska rafíþróttaliðinu LAVA Esports er lögð mik­il áhersla á lík­am­lega hreysti. Leik­menn LAVA fá því aðgang að lík­ams­rækt­ar­stöðvum World Class og er leiðbeint um við æf­ing­ar og mataræði.

Þá er vert að nefna að Brynj­ari Þór „BBRX“ Bergs­syni, liðsstjóra og yfirþjálf­ara LAVA, hef­ur tek­ist að missa um 30 kíló af fitu frá því í apríl á þessu ári sam­hliða því að stunda rafíþrótt­ir.

Rafíþróttaliðið LAVA Esports með Arena-bikarinn.
Rafíþróttaliðið LAVA Esports með Ar­ena-bik­ar­inn. Ljós­mynd/​LAVA Esports

„Við hjá LAVA leggj­um áherslu á lík­am­lega hreysti og lá það þá beint við að ég myndi sýna gott for­dæmi og rífa mig í gang,“ seg­ir Brynj­ar Þór í sam­tali við mbl.is.

Þá bæt­ir hann við að það sé grund­vall­ar­atriði er­lend­is að einkaþjálf­ar­ar, nær­ing­ar­fræðing­ar og fleiri starfi með liðunum.

Ekki nóg að setj­ast bara við tölv­una

„Rétt eins og í öðrum íþrótt­um þá þarf út­hald og ein­beit­ing að vera til staðar. Rafíþrótta­mót standa í marga klukku­tíma fram eft­ir og stærri mót­in í marga daga. Það hef­ur því klár­lega verið vit­und­ar­vakn­ing inn­an sen­unn­ar hér­lend­is og er­lend­is að það er ekki nóg að setj­ast bara við tölv­una og halda að maður sé alltaf í sínu besta standi.“

Brynj­ar æfir sjálf­ur fjór­um til fimm sinn­um í viku og seg­ir það henti best að fara á kvöld­in þegar hann hef­ur komið dætr­um sín­um í hátt­inn. Þá fylg­ir hann eft­ir ströngu æf­ingaplani frá Jó­hanni V. Norðfjörð, góðum vini Brynj­ars, sem hann seg­ir jafn­framt vera meist­ara í sínu fagi.

Brynjar Þór „BBRX“ Bergsson, liðsstjóri og yfirþjálfari LAVA Esports, hefur …
Brynj­ar Þór „BBRX“ Bergs­son, liðsstjóri og yfirþjálf­ari LAVA Esports, hef­ur misst 30 kíló af fitu frá því í apríl á þessu ári með rafíþróttaiðkun. Ljós­mynd/​Aðsend

Geta gripið í taum­ana

Þó leik­menn LAVA fái aðstoð við að út­búa hent­ugt æf­ingapl­an og matarpl­an þá njóta þeir mik­ils sjálf­stæðis varðandi eig­in hreysti. Þá er þeim ekki endi­lega skylt að æfa fjór­um til fimm sinn­um í viku, þó þeir hafi mögu­leika á því.

„Við erum ekki með kvaðir á okk­ar leik­menn, að þeir þurfi að gera eitt­hvað ákveðið. Samn­ing­arn­ir okk­ar gera þó ráð fyr­ir því að við get­um gripið í taum­ana ef ein­hver er kom­inn út fyr­ir vel­sæm­is­mörk þegar kem­ur að hreysti eða heilsu.“

Rek­ur bölv­un­ina til mataræðis og svefns

Sem fyrr seg­ir geta viður­eign­ir í rafíþrótt­um verið nokkuð lang­dregn­ar og er því mik­il­vægt að vera vel í stakk bú­inn til þess að geta haldið ein­beit­ingu og verið á tán­um út viður­eign­ina. 

„Það hef­ur oft verið talað um „lan-bölv­un­ina“ sem hvíl­ir yfir ákveðnum liðum er­lend­is,“ seg­ir Brynj­ar.

Hann tel­ur að þessa bölv­un megi oft rekja til lé­legs mataræðis og ónógs svefns. Lið séu að leika laus­um hala og gleyma sér í fjöri og skyndi­bita þegar þau mæta á staðinn.

„Það er oft stutt á milli sig­urs og taps og ein­beit­ing­in skipt­ir gríðarlegu máli. Það er oft erfitt að mæla þenn­an ár­ang­ur en hann kem­ur oft í ljós seint í keppn­um.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert