Tindur Örvar Örvarsson, einnig þekktur sem Tiindur, er 21 árs gamall rafíþróttamaður sem keppir fyrir hönd Íslands í eFótbolta og þá síðast á Balí í Indónesíu.
Samhliða rafíþróttamennskunni þjálfar hann fótboltaliðið Árbæ af miklu kappi og stefnir á að vinna 3. deildina með þeim í sumar.
Er þvi óhætt að segja að Tindur sé alltaf í boltanum, þá bæði í hinum stafræna heim jafnt sem raunheimum.
Þegar Tindur var sjö ára gamall byrjaði hann að spila tölvuleikinn FIFA 08 og hefur hann upp frá því spilað hvern leikinn á eftir öðrum í FIFA-leikjaröðinni.
Virðist leikurinn hafa gripið hug hans og hjarta strax í æsku þar sem hann spilar FIFA-leiki talsvert enn þann dag í dag.
Í samtali við mbl.is segist Tindur spila FIFA langmest af öllum öðrum leikjum en viðurkennir þó að hann hafi aldrei unnið litla bróður sinn í leiknum.
Ljóst er að Tindur er mikill fótboltamaður en þrátt fyrir að spila fyrir hönd Íslands í eFótbolta þá er hann aðeins nýlega byrjaður að spila leikinn.
FIFA og eFootball eru þó nokkuð sambærilegir leikir sem gerir það að verkum að auðveldara er að yfirfæra þekkingu milli leikja. Þó vissulega nýtist þekkingin á boltanum frá raunheimum einnig í hinum stafræna heimi.
„Góður leikskilningur í fótbolta hjálpar mér að lesa hvernig mótherjinn minn spilar í eFootball,“ segir Tindur í samtali við mbl.is.
Tindur hóf sinn rafíþróttaferil í miðjum veikindum, en þá tók hann þátt á opnu Íslandsmóti í eFótbolta. Þá lét hann veikindin ekki stöðva sig við spilun og kom sér í undanúrslitin.
„Ég hata að tapa, elska að vinna,“ segir Tindur í samtali við mbl.is.
Fyrir skömmu síðan spilaði hann á heimsmeistaramótinu í eFootball á Balí í Indónesíu en datt út eftir tapleik gegn Íran.
Þá segir hann hápunktinn á ferlinum fram að þessu felast í þátttöku á þessu móti og stefnir á að vinna það á næsta ári.
„Þar sem ég er nýbyrjaður að spila eFootball er mikið raunhæfara að geta unnið mótið á næsta ári.“
Eins og margir aðrir sem spila tölvuleiki, eða keppa í þeim, þá getur tónlist verið ótrúlega mikilvæg við spilun. Þó segir hann tónlistarvalið geta verið mjög mismunandi.
„Ég hlusta alltaf á tónlist þegar ég er að spila á mótum, finnst það sérstaklega nauðsynlegt þegar ég er að spila annars staðar en heima hjá mér. Til dæmis á viðburðum og í framleiðsluveri fyrir útsendingar,“ segir hann að lokum.