Teymið á bak við World of Warcraft hefur nú birt vegvísi fyrir næsta ár í World of Warcraft Dragonflight. Má meðal annars búast við sex efnisuppfærslum, tveimur stórum og fjórum minni.
Í tilkynningu segir að þróunarteymi leiksins hafi það að markmiði fyrir Dragonflight að „ávallt verði eitthvað rétt handan við hornið“ fyrir leikmenn.
„Þegar við skipulögðum veginn fram undan í kjölfarið á útgáfu Dragonflight höfum við haft í huga þær skyldur sem við höfum að gegna gagnvart leikmönnum okkar, til þess að hlúa að þessum lifandi heimi. Satt að segja þurfum við að gera betur en við höfum stundum gert undanfarið,“ segir í tilkynningu frá Blizzard.
Á næsta ári er stefnt að því að uppfæra leikinn með tveimur stórum uppfærslum ásamt nýjum svæðum, ránsferðum og árstíðabundnum verðlaunum.
Þess á milli er stefnt að því að halda áfram að stækka og þróa heiminn með nýjum heimsviðburðum, uppfærslum á ákveðnum kerfum, hátíðum, nýjum upplifunum í dýflissum og fjölmörgu öðru.
„En fyrst og fremst, fleiri tækifæri fyrir okkur til þess að mæta gagnrýni og breyta eða bæta við hlutum, byggt á því sem við heyrum að leikmenn okkar þurfi mest á að halda.“
Hér að neðan má sjá mynd af vegvísinum en nánari upplýsingar má finna í tilkynningunni sjálfri.