Deildar- og Íslandsmeistari fimm tímabil í röð

Brynjar Þór Bergsson „BBRX“, yfirþjálfari og liðsstjóri LAVA Esports með …
Brynjar Þór Bergsson „BBRX“, yfirþjálfari og liðsstjóri LAVA Esports með fjölskyldunni sinni. Ljósmynd/Aðsend

Brynjar Þór Bergsson „BBRX“ er 33 ára gamall rafíþróttamaður með meiru sem hætti að borða pylsur í kjölfar föðurhlutverksins. Þar að auki er hann fimmfaldur Íslandsmeistari í Rocket League en hann er bæði yfirþjálfari og liðsstjóri rafíþróttaliðsins LAVA Esports.

„Fyndið að segja frá því að eftir að ég varð faðir og fór að „naga“ draslið utan af pylsum fyrir dætur mínar svo það væri auðveldara fyrir þær að borða, þá hef ég ekki fengið mér eina einustu pylsu sjálfviljugur,“ segir Brynjar í samtali við mbl.is.

„Það var bara eitthvað við það sem bara slökkti á áhuganum.“

Þar áður naut hann þess að borða nokkuð hefðbundnar pylsur, þá með tómatsósu, sinnepi, remúlaði, steikum og hráum lauk en eftir að hann flutti norður þá fór hann að setja kokteilsósu á pylsuna sína.

Spilað í um þrjá áratugi

Pylsuvenjur Brynjars eru þó ekki endilega það sem vakti mestan áhuga hjá blaðamanni heldur hefur honum tekist að vera á toppi Rocket League-senunnar á Íslandi í fimm tímabil í röð samhliða því að annast fjölskylduna.

Brynjar hefur talsverða reynslu af tölvuleikjum en á ljósmynd frá árinu 1994 sést hann spila tölvuleikinn Aladdin á Sega Genesis-tölvu. Sú mynd bendir til þess að hann hafi um þrjátíu ára reynslu af tölvuleikjaspilun að baki.

Þá er hann aðeins fimm ára gamall svo óhætt er að segja að tölvuleikir hafi verið hluti af lífinu nánast alla hans ævi.

Stofnaði LAVA Esports

Það liggur augum uppi að Brynjar nýti þessa reynslu til hins ýtrasta í dag þegar horft er á árangur hans innan rafíþróttanna og þá helst í Rocket League.

„Ég byrjaði undir merkjum KR og hélt þá úti KR White, sem urðu tvöfaldir deildar- og íslandsmeistarar, sem og KR Black sem voru virkilega sterkir líka. Eftir tímabil tvö þá stofnum við LAVA esports ehf. og tökum þá mannskapinn úr KR White yfir,“ segir Brynjar.

„Það hafa verið mannabreytingar hjá okkur en Valdimar Steinarsson „Vaddimah“ hefur verið kletturinn í kjarnanum og hefur staðið mér við hlið í gegnum alla fimm deildar- og íslandsmeistaratitlana. Brynjar Örn Birgisson „BNZ“ kom svo á tímabili tvö og er fjórfaldur meistari.“

Vakandi fyrir breytingum og heldur sér á tánum

Þá spilar Brynjar þokkalega mikið sjálfur til að halda sér á tánum og í góðu leikformi. Þannig er hann meðvitaðari fyrir öllum breytingum og nýjungum í leiknum sem liðið gæti þurft að takast á við.

„En ég er þó nokkrum skrefum frá því að geta gripið í fjarstýringuna og tekið slaginn með besta liði landsins. Myndi þó sóma mér vel í úrvalsdeildinni - en þó nær miðri deild eða neðri helmingnum.“

Tölvuleikjaspilunin sjálf er þó aðeins hluti af því sem skiptir máli þegar kemur að rafíþróttum, eins og Brynjar hefur áður greint frá. Nýlega greindi mbl.is frá því að hann hafi misst um 30 kíló af fitu með stífu æfingaprógrammi en LAVA Esports leggur mikla áherslu á líkamlegt hreysti.

„Þetta er alltaf jafn gaman og ótrúlegt hvað þetta samfélag er komið langt á stuttum tíma. Ég hef verið svo lánsamur í gegnum tíðina að menn sáu metnaðinn í mér til að ná langt og vildu taka þátt í þessu með mér,“ segir Brynjar.

„Saman voru allir tilbúnir að leggja hart á sig til að ná árangri í þessu sporti. Á dauða mínum átti ég von en að sigra deildar- og íslandsmeistarakeppnina fimm tímabil í röð er eitthvað sem ég á strákunum mínum allt að þakka enda er þetta einsdæmi í íslenskum rafíþróttum.“

Frá vinstri til hægri: Kristófer Anton „Paxole“ Stefánsson / Emil …
Frá vinstri til hægri: Kristófer Anton „Paxole“ Stefánsson / Emil „EmilVald“ Valdimarsson / Brynjar Þór „BBRX“ Bergsson / Valdimar „Vaddimah“ Steinarsson / Brynjar Örn „BNZ“ Birgisson Ljósmynd/LAVA Esports

Hausinn þarf að vera í topp standi

Aðkoma Brynjars sem þjálfari felur að sjálfsögðu margt í sér og bendir hann blaðamanni á nokkur atriði.

„Allt frá því að leikgreina andstæðinga, benda mönnum á hvað betur mætti fara og yfir í það að halda mönnum góðum utan vallar,“ segir Brynjar.

Þá vill hann meina það síðastnefnda, að menn séu einnig góðir utan vallar, vera vanmetnasta partinn sem jafnframt fái minnstu viðurkenninguna þrátt fyrir að mesta vinnan fari í það.

„Ég hef alltaf sagt að hausinn þarf að vera í topp standi og eftir höfðinu dansa limirnir.“

„Ég veit hvað strákarnir leggja mikið á sig til að vera þeir bestu og árangurinn er eftir því. Jú auðvitað er það ótrúlegt að hafa sigrað fimm tímabil í röð og í raun bara tapað örfáum viðureignum, en þetta er samspil á milli leikmanna, þjálfara og liðsstjórnar.“

Samkeppnin í deildunum hörð

Samkeppnin í Rocket League-deildunum á Íslandi hefur ætíð verið mikil og segir Brynjar síðasta tímabil hafa reynt mikið á hópinn. Er það einna helst vegna þess að liðið skiptist upp í tvennt þar sem tveir gríðarlega sterkir leikmenn fóru frá LAVA og færðu sig yfir til Breiðabliks.

„Þrátt fyrir mikla og ítarlega leit innanlands þá fórum við aðra leið þegar við fengum gríðarlega stórt tækifæri á stækkun LAVA og senunnar. Við gripum því inn breskan háskólaþjálfara sem leikmann og færðum okkur upp á næsta stig í reynslu.“

Brynjar telur því samspil og samvinnu milli allra innanborðs skipta sköpum þegar kemur að því að ná árangri og ber árangur LAVA þess merki. Enda eru fleiri um borð en einungis leikmennirnir sjálfir.

„Ég vill meina að mörg lið þarna úti myndu taka gífurlegum stakkaskiptum ef liðsstjóri eða þjálfari innanborðs myndi tileinka sér hlutverkið að fullu.“

„Bara það t.d. að taka stóru ákvarðanirnar úr höndunum á leikmönnum, því þær geta skapað mikla spennu innanborðs ef menn eru ekki allir á sömu blaðsíðu.“

Sérstaklega annt um þann fimmta

Allir fimm deildar- og Íslandsmeistaratitlar eru Brynjari mjög kærir en það er þó eitthvað sérstaklega sætt við þannn fimmta, þá sérstaklega í ljósi þess hve mikið var lagt í að tryggja sér hann.

Til dæmis með því að fljúga erlenda leikmanninum til landsins þegar úrslitahelgin í Arena-deildinni fór fram.

Getur því verið bæði annasamt og krefjandi að stunda rafíþróttir, eins og aðrar íþróttir, en líkt og kemur fram hér að ofan er Brynjar einnig fjölskyldufaðir og því margt fleira um að vera bakvið tjöldin.

Eiginkonan stoðin og styttan

„Fyrir utan hefðbundið 9-5 starf, þá hef ég kastað pílum frá því að ég var gutti og gríp ég reglulega í þær. Annars er ég mikill „pabbi“ í mér og eyði sem mestum tíma með stelpunum mínum sem eru tæplega 2 ára og rúmlega 4 ára.“

Veltir því blaðamaður fyrir sér hvort sólarhringurinn hjá Brynjari feli í sér fleiri klukkustundir en hjá öðrum og eins hvernig honum takist að halda öllum boltunum á lofti. Þá segist hann þrífast best þegar nóg er fyrir stafni og að vegna þess elski hann gott skipulag, að hafa hlutina í röð og reglu.

„Ég er týpan sem fæ mér það sama í hádegismatinn marga daga í röð, bara því það passar inn í skipulagið og ég veit nákvæmlega að hverju ég geng. Þó þetta hljómar svolítið ferkantað þá verður maður líka að kunna að taka því ef eitthvað fer út af sporunum með stóískri ró og tækla þá bolta sem lífið kastar í mann.“

„Eiginkonan er mín stoð og stytta og styður mig alla leið.“

Hlýtur þjálfun af fimmföldum meistara

Fjölskyldan nýtur einnig góðs af þekkingu Brynjars á rafíþróttunum þar sem börnin fá að læra heilbrigða spilahætti.

Þá má nefna að eldri dóttir hans er byrjuð að prófa sig áfram í tölvuleiknum Rocket League og er það ekki af verri endanum að hljóta þjálfun frá fimmföldum deildar- og Íslandsmeistara í leiknum, pabba sínum.

„Eldri stelpan er aðeins farin að fá að fikta og er rosalega gaman að sjá hana taka framförum í þessum leik. Hún er einungis fjögurra ára gömul en ég spái að hún verði með þeim betri í leiknum fyrir 10 ára aldur.“

Eins og með alla íþróttaiðkun þá snýst þetta um að hafa heilbrigt jafnvægi á spilatímanum og fær hún strax að kynnast því að það þarf að sinna öðrum verkefnum á heimilinu og í lífinu samhliða þessu.

Svalar nördaþorstanum

Brynjar spilar þó fleiri leiki en einungis Rocket League og þá leiki eins og Counter-Strike: Global Offensive og Raid Shadow Legends til þess að „svala nördaþorstanum“. Hann hlustar þá gjarnan á einhverskonar tónlist meðan hann spilar.

Hann er „alæta á tónlist“ og getur spilunarlistinn því falið í sér ansi mismunandi tónlist. Allt frá krúttlegum Disney-lögum yfir í þyngri tóna eins og Chop Suey, eða jafnvel klassíska tónlist á borð við Nessun Dorma.

Því er aldrei að vita hvaða tónar leika undir þegar hann spilar tölvuleiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert