Emil „EmilVald“ Valdimarsson var kjörinn rafíþróttamaður Breiðabliks á íþróttahátíð félagsins sem fór fram þann 9. janúar. Vert er að nefna að Breiðablik hefur aldrei áður veitt þessa viðurkenningu og er Emil með því fyrsti rafíþróttamaður ársins hjá liðinu.
Það var í sumar sem Emil gekk til liðs við Rocket League-lið Breiðabliks og átti hann stóran þátt í þeim góða árangri sem náðist á fyrsta keppnistímabilinu.
Þá hampaði Breiðablik öðru sæti í deildinni og keppti til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í æsispennandi leik en tapaði 4:3.
Í dag þjálfar Emil yngri iðkendur Breiðabliks ásamt því að spila fyrir hönd liðsins, en hann er þar að auki í hópi af hundrað bestu leikmönnum í heimi í Rocket League.
Emil hefur náð góðum árangri erlendis og má nefna að hann var með fjórum efstu í bresku úrslitakeppninni. Sú keppni er undankeppni fyrir EMEA Predator League en það er stærsta keppnin í Rocket League í Evrópu.
„Emil er ótvírætt besti leikmaður landsins í sínu fagi. Hann er tilþrifamikill og atorkusamur, einnig drífur hann liðsfélaga sína áfram og rífur þá upp á sitt „level“. Hann er reynslumikill og sinnir fyrirliða hlutverki frábærlega þrátt fyrir aldur,“ segir Karl Leó, þjálfari Rocket League-liðs Breiðabliks.
„Fyrirmyndar íþróttamaður í alla staði og á þetta svo sannarlega skilið.“