Kínverjar leggja frá sér byssurnar í Overwatch og kveðja Azeroth í tölvuleiknum World of Warcraft í dag, hugsanlega í hinsta sinn.
Er það vegna deilna milli bandarískra þróunaraðila hjá Blizzard og fyrirtækisins NetEase sem sneru að samningagerð. Ekki fór betur en svo að NetEase ákvað að loka fyrir ákveðna tölvuleiki frá Blizzard klukkan 16 í dag á íslenskum tíma, leikmönnum til mikilla ama.
Þá var m.a. lokað á World of Warcraft, Overwatch, Hearthstone og Diablo III en Blizzard hefur verið með sína leiki á kínverskum markaði í um fjórtán ár, og nemur leikmannahópurinn milljónum manns.
Kínversk Overwatch-lið eru með því sett í býsna erfiða stöðu. Mikil óvissa ríkir nú um mótahald jafnt sem æfingar þar sem ekki verður hægt að spila leikinn í Kína lengur.
Samkvæmt rannsóknarblaðamanninum Jacob Wolf eru nokkur lið nú þegar byrjuð að skoða lagalegan rétt sinn og huga að því hvernig hægt er að snúa sér í þessu.
Reyndar segir hann að Kínverjar hafi rætt lagalegar aðgerðir í tengslum við rafíþróttir í nokkuð langan tíma núna, eða frá því að strangar takmarkanir yfirvalda hófust árið 2020. Þá breyttist keppnissenan til muna og hefur enn ekki fallið í eðlilegt horf.
„Þessi tvö fyrirtæki hafa tekið leikmenn í gíslingu,“ segir Wu, þrítugur læknanemi og aðdáandi til margra ára, í samtali við AFP.
Á síðasta ári sagði Simon Zhu, forstjóri NetEase, á LinkedIn að „einn daginn verði sagt frá því sem gerðist á bak við tjöldin“. Þá munu „þróunaraðilar og tölvuleikjaspilarar öðlast meiri skilning á því hversu mikinn skaða einn fáviti getur gert“.
Blizzard í Kína sagðist hafa óskað eftir sex mánaða framlengingu á samning en að NetEase hafi neitað því. Að sama skapi segir fyrirtækið að lokun kínverskra Blizzard-netþjóna séu ekki „endalokin“, heldur að hér sé um að ræða „tímabundna og óánægjulega lokun“.
Samkvæmt Blizzard verða uppsöfnuð gögn notenda þó ekki endilega glötuð, þar sem hægt er að vista þau. Verður þá hægt að nálgast þau á ný ef og þegar leikirnir snúa aftur á kínverskan markað.
Óhætt er að segja að mikill úlfaþytur hafi orðið vegna þessa og unnu starfsmenn NetEase meðal annars skemmdarverk á Orkastyttu í mótmælaskyni í beinni útsendingu.