Úrslitastundin í Kraftvéladeildinni var ansi spennuþrungin en síðastliðinn sunnudag átti Fylkir glæstan sigur gegn Kórdrengjum sem varð til þess að liðið vann deildina án þess að tapa leik.
Á tímabilinu hafa Kórdrengir keppt við Fylki í nokkur skipti en ögrandi skilaboð Kórdrengja til Aleksanders Mojsa, í Fylki, benda til þess að samkeppnin á næsta tímabili verði enn harðari.
„Mojsa getur passað sig, við erum að fara að koma á eftir honum,“ sagði Kórdrengur einn eftir mótið, kíminn á svip.
„Og hættið að banna línu, fávitarnir ykkar,“ bætir annar Kórdrengurinn við og hlógu þeir allir, í kór.
Allir voru þeir þó sammála um að Fylkir ætti þennan sigur verðskuldaðan og báru liðinu gott orð.
Fylkir og Kórdrengir spiluðu þrjá leiki, af fimm mögulegum, í úrslitunum. Hugmynd Kórdrengja var sú að þeir gætu unnið leik á tuttugu mínútum, en enduðu svo á því að tapa honum á átta mínútum. Hinsvegar segja þeir hina tvo leikina hafa verið fína.
„Við þurfum bara að skipuleggja okkur og æfa betur. Það er fyrst og fremst það,“ segja þeir en þeir höfðu ekki æft sig mikið, telja þeir Fylkir því eiga allt hrós skilið fyrir þennan úrslitaleik.
„Við spiluðum alveg oft við þá á þessu móti og það fór einhvern veginn alltaf eins, þeir lásu okkur bara of vel,“ segir einn Kórdrengjanna og bætir við að þeir hafi þó þeir hafi verið með nýtt leikjaplan fyrir hvern leik þá hafi það ekki breytt miklu.
Þeir væru einfaldlega „bara miklu betri“ en Kórdrengir væru samt að taka framförum, og æfingin skapar svo sannarlega meistarann.
„Mér finnst þetta líka bara sýna það að þeir æfðu sig rosa mikið, og það sást alveg. Þeir voru með góða samhæfingu og spiluðu vel saman sem lið.“
Aleksander Mojsa fannst þessi skilaboð ansi fyndin, en innan Dota 2-samfélagsins er gert mikið grín og er hópurinn almennt ansi þéttur.
„Ég þarf að passa mig, það er rétt hjá honum,“ segir Aleksander við skilaboðum Kórdrengja.
„Ég þarf að byrja að velja almennilegar hetjur og ég mun passa mig.“
Kórdrengurinn Mjölnir hefur mikla reynslu af leiknum þar sem hann spilaði mikið áður fyrr, en nú er hann er að „vakna úr dvala“ með því að dusta rykið af músinni og koma sér inn í keppnissenuna sem leikinn á ný.
„Mjölnir spilaði hérna áður fyrr og er núna að koma tilbaka, eiginlega bara úr dvala. Annars eru tveir okkar með börn og getum ekki verið að spila neitt mikið. Þó það sé ekkert afsökun, þeir eru bara mikið betri.“
„Æfingin skapar meistarann, það er bara þannig.“
Verður því fróðlegt að fylgjast með næsta tímabili Kraftvéldeildarinnar og hvort Kórdrengir nái að jafna metin við Fylki.