Seðlabankinn og Icelandair á toppnum

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. Morgunblaðið/Golli

Nóg er um að vera hjá starfsmönnum íslenskra fyrirtækja um þessar mundir þar sem Firmamótið er í fullum gangi.

Mótið hófst fyrr í mánuðinum og fyrstu leikirnir voru spilaðir þann 6. febrúar. Þetta árið keppa starfsmenn fyrir hönd fyrirtækja sinna í leikjunum Counter-Strike: Global Offensive, Valorant og Rocket League.

Firmamót Elko.
Firmamót Elko. Grafík/Elko

Elko á toppnum og botninum á sama tíma

Talsverður fjöldi liða keppa í CS:GO en þar eru 25 lið sem etja kappi hvert við annað í fimm riðlum. 

Seðlabanki Íslands, Icelandair, Gangverk og BL ehf. tróna á toppnum í sínum riðil en það gerir líka annað af tveimur liðum Elko, 1337Elko. Hitt lið Elko, Bumbulið Elko, kúrir aftur á móti á botninum í sínum riðil.

Nokkur lið hafa spilað tvær viðureignir en önnur hafa spilað þrjár og eru nokkur lið sem hafa sýnt af sér ansi sigurvæna takta. Athygli vekur að lið Advania hefur aðeins unnið eina af þremur viðureignum á þessu móti en sama lið hampaði öðru sætinu í CS:GO á síðasta ári.

„Það er farið að móta fyrir sigurvænni liðum í hverjum riðli, en það styttist senn í að þau lið fari að mætast og þá verður keppnin eflaust mjög spennandi,“ segir í tilkynningu.

Riðlakeppnin stendur yfir fram að 13. mars en þá hefst sextán liða einföld útsláttarkeppni. Nánari upplýsingar um stöðu fyrirtækja í CS:GO á Firmamótinu má finna með því að fylgja þessum hlekk.

Firmamót Elko.
Firmamót Elko. Grafík/Elko

Dominos ekki tapað leik

Í tölvuleiknum Valorant keppa fjögur lið í einum riðil. Keppt er í tvöfaldri riðlakeppni fram að 20. mars, þegar fyrstu leikirnir í einfaldri fjögurra liða útsláttarkeppni verða spilaðir.

Flatbökufyrirtækið Dominos situr þar á toppnum með fullt hús stiga, eða sex af sex mögulegum eftir fyrstu umferð riðlakeppninnar.

Dominos hefur því unnið allar sínar viðureignir fram að þessu og verður því fróðlegt að fylgjast með seinni umferð riðlakeppninnar. Óhætt er að segja að frammistaða liðsmanna Dominos gefi góð fyrirheit um framhaldið í útsláttarkeppninni.

Nánari upplýsingar um stöðu Valorant-keppninnar á Firmamótinu má finna með því fylgja þessum hlekk.

Meðal leikja sem keppt er í á Firmamóti Elko er …
Meðal leikja sem keppt er í á Firmamóti Elko er Valorant. Grafík/Elko

Heldur vel á spilunum

Ellefu lið keppa í tölvuleiknum Rocket League og þá í tveimur riðlum, annars vegar sex liða riðli og hins vegar fimm liða riðli. 

Dominos heldur ekki bara vel á spilunum í Valorant þar sem annað lið fyrirtækisins í Rocket League er stigahæst í sínum riðli. Það sama er ekki hægt að segja um hitt liðið.

Liðin keppa í sama riðil en sitja hvort á sínum endanum, þar sem annað er stigahæst á toppnum meðan hitt situr stigalaust í botni riðilsins.

Í hinum riðlinum hefur NetApp heldur en ekki sannað sig og trónir á toppnum með töluverða forystu, með tólf stig gegn sex.

Riðlakeppnin stendur yfir fram að 1. apríl en þá fer fram einföld átta liða útsláttarkeppni. Nánari upplýsingar um stöðu Rocket League-keppninnar má lesa með því að fylgja þessum hlekk.

Meðal leikja sem keppt er í á Firmamóti Elko er …
Meðal leikja sem keppt er í á Firmamóti Elko er Rocket League. Grafík/Elko

Skorað á liðin í hverri viku

Öll liðin á Firmamótinu taka þátt í „Betri vegferð“, en með henni er skorað á liðin að leysa ýmis verkefni í hverri viku. Áskoranirnar hafa þann tilgang að efla og stuðla að liðsheild sem og liðsuppbyggingu.

Úrslitaviðureignin í öllum þremur leikjum verður spiluð þann 1. apríl í rafíþróttahöllinni Arena frá klukkan 16:30 og verður hægt að fylgjast með þeim í beinni útsendingu á Twitch-rás Rafíþróttasamtaka Íslands og á Stöð2 Esports.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert