Ólafur Hrafn Steinarsson hefur verið einn helsti talsmaður rafíþrótta á Íslandi en þess má geta að hann er fyrrverandi formaður RÍSÍ og stofnaði þar að auki Esports Coaching Academy fyrir um ári síðan.
Í nýjasta Settöpp-þættinum fer Ólafur um býsna víðan völl og skýrir frá því hvað ECA er í raun og veru og deilir persónulegri reynslu sinni af tölvuleikjum og hvernig ferill hans hófst.
ECA á vera eins konar þjálfunartól fyrir þjálfara þar sem þeir hljóta ákveðna menntun til þess að vera betur í stakk búnir að þjálfa aðra í rafíþróttum.
„Í tölvuleikjum, þá hefur kannski enginn tekið þessa vinnu og gert hana almennilega,“ segir Ólafur og vísar þá í hvernig mismunandi æfingar gagnast mismunandi íþróttum. Hjá ECA er verið að þróa þjálfunaraðferðir í rafíþróttum svo þær skili góðum árangri.
„Þetta á að snúast um að ná mikilli þátttöku, skila jákvæðum boðskap, búa til góðar venjur, rútínur og byggja upp flotta einstaklinga.“
Áhugi Ólafs og metnaður fyrir rafíþróttum á sér djúpar rætur, en hann kynntist tölvuleikjum upprunalega í gegnum ömmu sína þegar hann var á barnsaldri.
Síðan þá hafa tölvuleikir margoft spilað stórt hlutverk í lífi hans, eins og þegar fráfall föður hans bar að, eða þegar hann átti við félagslegan vanda að stríða.
„Ég kynnist tölvuleikjum þegar amma mín er að kenna mér á Doktor Mario og Super Mario Bros,“ segir Ólafur og bætir við að hún hafi alltaf látið afa kaupa tölvur og tölvuleiki þegar hann var úti á sjó.
Í spilaranum hér efst í fréttinni er hægt að horfa á þáttinn í heild sinni og heyra þar fjölmargt annað áhugavert.