Fagnaðarlæti og kæti fyllti rafíþróttahöllina Arena í Kópavogi um helgina þegar Atgeirar voru krýndir Íslandsmeistarar í Overwatch 2, en úrslitin í Almenna bikarnum fóru fram á laugardaginn.
Úrslitaviðureignin var ansi spennandi en það voru leikmenn NÚ og Atgeira sem börðust um fyrsta sætið í Almenna bikarnum á þessu tímabili.
NÚ hafði yfirhöndina í byrjun og voru 3:0 yfir en Atgeirar sneru síðan stöðunni sér í vil og vann fjóra leiki í röð.
„Þetta var eins og í draumi,“ segir Fannar Logi í samtali við mbl.is og bætir við að þetta hafi verið ógleymanlegt kvöld.
„Góður endir á glæstu ævintýri hjá Atgeirum, sem hafa verið að eltast við titilinn í nokkur ár. Sú reynsla reyndist okkur vel þegar við vorum með bakið upp við vegginn.“
Mikil stemning var í húsinu en í myndbandinu hér fyrir neðan má sjá þjálfara Atgeira, Fannar Loga, hlaupa til litla bróður síns sem keppir fyrir hönd Atgeira, Magnúsar Hinriks „avvi“ og gefa honum stórt knús í beinu framhaldi af sigrinum.
Salurinn var fullur af stuðningsmönnum Atgeira sem sungu og öskruðu allan tímann og segir Fannar með þakklæti að ekki séu allir svo heppnir að hafa svo sterkan stuðningshóp á bak við sig.
Það var margt sem kom Atgeirum á óvart en það var aldrei neinn vafamál að komast í úrslitin, en hvort þeir myndu mæta Böðlum eða NÚ voru þeir ekki vissir um þar sem Böðlar hafa einnig sýnt af sér mikinn styrk á tímabilinu.
„Það sem gerir okkur að besta liðinu og Íslandsmeisturum er sennilega hugarfarið, „hugarfar sigurvegara“ eins og það er kallað.“ segir Fannar.
„Allir í liðinu eru með sterkan haus og hjarta, það skín í gegn í þessari seríu þar sem við fórum 0:3 undir í frekar slöppum leikjum, virtist stefna í gróft tap en við tókum okkur saman og sýndum hvað í okkur bjó og tókum 4 leiki í röð.“
Í samtali við mbl.is segist Ingólfur Sigurðsson „ILO“, leikmaður NÚ, vera gríðarlega stoltur af sínu liði og frammistöðunni þar sem þetta var fyrsta tímabilið þeirra saman.
Þegar leið á leikinn voru leikmenn orðnir nokkuð stressaðir sem orsakaði ýmis klaufamistök og héldu þeir jafnvel of fast í upprunalega leikplanið, en þeir hefðu mögulega getað breytt eitthvað til fyrr.
„Þar af leiðandi vorum við að gera mikið af klaufamistökum, við vorum að missa leikmenn snemma í bardögum þegar það var engin þörf á því að deyja,“ segir Ingólfur í samtali við mbl.is.
„Þetta er mest svekkjandi tapið á ferlinum, en ég held að þetta hafi samt verið mikilvæg lexía fyrir okkur og við munum rísa mikið sterkari upp úr þessu.“
Tímabilið hjá NÚ er þó ekki búið en liðið er á leið inn í Evrópumót á vegum Blizzard, og mun þar mæta bestu liðum Evrópu og verður fróðlegt að fylgjast með því
Ljóst er að mikið húllumhæ var um að vera í Arena á laugardaginn og höfðu nokkrir orð á því að það hafi sennilega aldrei verið svo mikil stemning á Overwatch-leik á Íslandi, jafnvel á íslensku úrslitakvöldi í rafíþróttum yfir höfuð.
Hér fyrir neðan má sjá endursýningu af úrslitaviðureigninni á streymisveitunni Twitch ásamt viðtölum.